Aflið fær átján milljóna rekstrarstyrk

Hjalti Ómar Ágústsson, Ásmundur Einar Daðason og Elínbjörg Ragnarsdóttir

Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, fær 18 milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni sem felst í þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldi, samkvæmt nýjum samningi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur gert við samtökin. Ásmundur Einar og Hjalti Ómar Ágústsson fyrir hönd Aflsins undirrituðu samninginn á Akureyri á dögunum en samningurinn er til eins árs.

Fram kemur í tilkynningu að þjónusta Aflsins felist í faglegri ráðgjöf og stuðningi við þolendur, forvarnarfræðslu og handleiðslu. Aflið var stofnað árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu. Undanfarin ár hefur Aflið verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og átt í samvinnu við bæjaryfirvöld sem á móti veitt hafa félaginu afnot af húsnæði fyrir starfsemi sína í Aðalstræti 14. Samstarfið felst  meðal annars í viðveru og sýnileika sjálfboðaliða á vegum Aflsins á fjölmennum viðburðum og einnig á tjaldstæðum og víðar þegar margmennt er í bænum um helgar. Auk þess veita ráðgjafar Aflsins fræðslu í grunnskólum bæjarins samkvæmt samkomulagi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila