Lélegt menntakerfi skilar verri efnahagsstjórn

Menntunarþætti íslensks skólakerfið hefur farið mikið aftur með þeim afleiðingum að háskólar landsins eru orðnir miklu lakari stofnanir en áður fyrr. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ragnars Árnasonar prófessors emeritus og hagfræðings í síðdegisútvarpinu í vikunni en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Ragnar segir að hnignunin hafi byrjað í barnaskólunum og teygt sig upp í háskólana sem fyrir vikið veita minni menntun. Nemendurnir sem fari í gegnum þetta kerfi séu í minni tengslum við þá verðmætasköpun sem á sér stað í samfélaginu.

„þeir eru orðnir það sem var einu sinni kallað firrtir hvað þetta snertir og þetta er stór ástæða þess hvað stjórnmálin hafi farið mikið út af brautinni“ segir Ragnar.

Þekkingu ábótavant

Hann segir að þetta þýði að kjósendur viti ekki almennilega hvað þeir séu að kjósa um því þeir hafi ekki staðreyndirnar um líf og starf, því þeir þekkja það ekki og hafa ekki það fyrir framan sig hvar verðmætin eru sköpuð.

Svo eru það stjórnmálamennirnir sem komi úr þessum sama hópi sem hafa miklu minni þekkingu á nákvæmlega sömu hlutum og taki þess vegna rangar ákvarðanir. Þeim finnist mikilvægara að koma í veg fyrir að það verði of heitt í Bandaríkjunum, heldur en það að Íslendingar hafi nægilega mikið að bíta og brenna.

Nauðsynlegt að taka skólakerfið í gegn

Aðspurður um hvað honum finnist um þær umræður sem eiga sér stað á þingi segir Ragnar að hann forðist að horfa á þær en líti þó á þær öðru hvoru.

„ég bara get sagt það hér og nú og veit að ég móðga marga en gæðin á þeirri umræðu, bæði í þingsal og nefndum þar sem ég mæti stundum eru afskaplega lág“

Aðspurður um að hvort það sé svo að laga þurfi skólakerfið til þess að laga efnahagsmálin á Íslandi segir Ragnar.

„því miður held ég að íslenskt þjóðfélag hafi þróast á þann hátt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að taka skólakerfið í gegn og bæta það stórlega“segir Ragnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila