Áhersla á umferðaröryggi, samgöngubætur og umhirðu hjá íbúum Vesturbæjar og Miðborgar

Einar Þorsteinsson borgarstjóri átti fund með íbúum Vesturbæjar og Miðborgarinnar í dag en þar fékk borgarstjóri að vita milliðalaust hvað íbúum svæðisins finnst gott í umhverfinu og þjónustunni og hvað mætti fara betur.

Á fundunum var meðal annars var rætt um innviði fyrir gangandi og hjólandi, umferðaröryggi, leikskóla- og bílastæðamál auk umhirðu og hreinsunar.

Fundurinn með íbúum Vesturbæjar fór fram í Vesturbæjarskóla rétt fyrir hádegi en eins og fyrri fundir hófst þessi á samtali um hvað íbúarnir kynnu best að meta við hverfið sitt. Sagðist hann þannig vilja fá vísbendingar um hverju væri mikilvægt að hlúa að í hverfinu og jafnvel fá hugmyndir um hvaða góðu þætti mætti yfirfæra á önnur hverfi.

Íbúar Vesturbæjar voru ekki í vandræðum með að nefna margt gott við hverfið sitt og var Vesturbæjarlaugin oftast nefnd, ásamt fallegu umhverfi og góðri staðsetningu. Íbúar voru líka ánægðir með hversu stutt væri að sækja í fjölbreytt menningarlíf auk þess sem þeir nefndu hafið, skólana, gönguvænt umhverfi, marga leikvelli og íþróttafélagið KR, svo eitthvað sé nefnt.

Umferðaröryggi fólki efst í huga

Umferðaröryggi lá einna þyngst á fundarfólki, sem vildi umbætur í þeim málaflokki. Einnig var talað um bót á innviðum fyrir hjólandi og gangandi, enda væru mörg bíllaus í hverfinu. Tryggja þyrfti fjármagn til að klára endurbætur við Hagaskóla og sum nefndu að bæta mætti tengingu við verslunarsvæðið á Granda, þá helst með bættum strætósamgöngum. Kallað var eftir endurmati á stöðunni hvað varðar gjaldskyldu bílastæða á íbúðasvæðum. „Fleiri ærslabelgi,“ nefndi svo einn og hlaut góðar undirtektir, enda hafa ærslabelgirnir lagst vel í borgarbúa og oft hlotið kosningu í lýðræðisverkefninu Hverfið mitt.

Leikskólamál voru rædd enda staðan í Vesturbænum slæm, á meðan hún er mun betri í ýmsum öðrum hverfum. Sagði borgarstjóri ekki skorta fjármagn í þeim málaflokki en að takast þyrfti á við ýmsar aðrar hindranir og grunn- og leikskólamál væru í algjörum forgangi.

„Ég fæddist ekki í hverfinu en kom eins fljótt og ég gat,“ sagði einn fundargesta og kvaðst fá heimþrá færi hann í önnur hverfi. Tekið var undir þetta með gleði og varð viðstöddum tíðrætt um þorpsbrag og góðan hverfisanda.

Líf og fjör það besta við hverfið

Fundurinn í Miðborginni var haldinn í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla klukkan 14 og var afar vel sóttur. Þegar rætt var um allt það jákvæða í hverfinu var Tjörnin ofarlega á blaði sem og staðsetning miðsvæðis og fjölbreytni í menningu, þjónustu, húsagerð og öðru.

„Það besta við hverfið okkar eru öll torgin og fleiri eru sífellt að bætast við,“ nefndi ein, við góðar undirtektir flestra viðstaddra. „Það er alltaf líf og fjör og fullt af fólki á torgunum“

Einna efst á blaði í umræðu um hvað mætti betur fara voru umhirða og hreinsun. Þá var bílastæðavandinn ræddur auk veggjakrots, en skiptar skoðanir voru um þéttingu byggðar og hvort þar ætti að bæta í eða draga úr. Aukið samráð við íbúa var einnig nefnt, ásamt sorphirðu og umferðarhraða. Sum kölluðu eftir fleiri vistgötum og einn fundargestur lagði til að hólmarnir í Tjörninni fengju yfirhalningu.

Íbúakærleikur var nefndur sérstaklega og eftir daginn stóð það orð einna helst upp úr. Íbúar þessara hverfa skynja velvild og væntumþykju í nærumhverfi sínu og vilja halda í þorpsbrag og góða hverfismenningu.

Hér að neðan má sjá flettimyndaseríu frá fundunum

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila