Áhugi á handbolta hefur aukist gríðarlega gegnum tíðina

Handboltakempur með meiru, Helga Magnúsdóttir, Jón Hjaltalín Magnússon og Arnþrúður Karlsdóttir

Áður en Jón Hjaltalín Magnússon tók við sem formaður HSÍ árið 1984 var áhugi landsmanna á handbolta afar takmarkaður og voru landsleikir ekki spilaðir nema einstaka sinnum en það átti eftir að breytast með Jón Hjaltalín í fremstu víglínu sem byggði upp handboltann hér á landi og segja má að í dag búi handboltinn vel að arfleifð Jóns.

Þetta var meðal þess sem fram kom síðdegisútvarpinu í dag þar sem Arnþrúður Karlsdóttir sem sjálf var fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik um langt árabil og stjórnarmaður í HSÍ og formaður landsliðsnefndar ræddi við Jón Hjaltalín fyrrverandi formann HSÍ og landsliðsmann og Helgu Magnúsdóttur fyrrverandi handboltakonu úr gullaldarliði Fram og stjórnarmann HSÍ, en Helga er jafnframt fyrsta konan sem varð eftirlitsdómari í Evrópu á vegum IHF,  evrópska handknattleikssambandsins ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn IHF.

Jón segir að þegar hann tók við hafi áhuginn á handboltanum verið þannig að oft voru leikmennirnir fleiri en áhorfendurnir og því ljóst að mikið starf væri fyrir höndum og segir Jón að hann hafi treyst sér vel til þeirra verka. Þegar Jón tók við þá fóru meðal annars konur að fá fleiri leiki á mótum.

Helga segir að þegar kvennaliðið hafi orðið Norðurlandameistarar árið 1964 hafi ekki gengið nægilega vel að fylgja því eftir og það hafi ekki verið fyrr en Jón hafi tekið við formennsku í HSÍ að það fór að koma hreyfing á hlutina.

„það er svona um það bil þegar Jón tekur við að það er farið að gera virkilega gott átak í því að laga kvennahandboltann, stelpurnar þurftu til dæmis sjálfar að safna fyrir landsliðsferðum áður en hann tók við en til dæmis var farið í fyrstu landsliðsdeild kvenna árið 1988 þar sem HSÍ sá um að borga brúsann“segir Helga.

Jón segir að á þessum tíma hafi Íslendingar átt frábært kvennalandslið en þeim hafi vantað að fá að æfa meira og fá fleiri tækifæri til þess að keppa.

„en við í stjórninni ákváðum að horfa meira til framtíðar og byrjuðum því mjög snemma að þjálfa 16 ára, 18 ára og 20 ára landslið pilta og stúlkna sem æfðu öll sumrin og þannig fengum við mjög góðan hóp yngri pilta og stúlkna í félagsliðin og þá varð handboltinn miklu betri“,segir Jón.

Eins og flestum er kunnugt stendur heimsmeistaramótið í handbolta sem hæst og þá veitir strákunum okkar ekki af stuðningi og góðum ráðum. En hvaða leyndarmálum luma þau Helga og Jón á fyrir strákana?

„Það er gífurlega mikilvægt að þeir hafi gott sjálfstraust því ef þú trúir því ekki að þú getir unnið leikinn þá ertu ekki í góðum málum en svo er líka gott að hafa svolítið heppnina með sér líka“segir Helga.

Jón segir mikilvægt að þjálfarinn hafi gott auga fyrir leikmönnum sínum:

“ leikmaðurinn verður að vera í stuði fyrir leikinn, ef hann er það ekki þá er hætta á mistökum og þá er ekki annað að gera en að skipta honum út“segir Jón.

Deila