Almannavarnir biðla til húseigenda í Grindavík að nálgast lykla af eignum sínum

Almannavarnir hafa sent frá sér tilkynningu þar sem biðlað er til húseigenda í Grindavík að nálgast lykla af húseignum sínum.

Vegna vinnu við verðmætabjörgun og viðhaldsvinnu á innviðum hafa lyklar íbúa verið í vörslu bæjarins en nú er þeirri vinnu að mestu lokið og því þurfa eigendur að nálgast lyklana sem hér segir:

  • Þess er óskað að eigendur nálgist lykla að eignum frá og með miðvikudeginum 17. apríl, til og með sunnudagsins 21. apríl.
  • Opið verður milli klukkan 9-20 miðvikudag til föstudags og frá klukkan 9-17 laugardag og sunnudag.
  • Þeir eigendur sem komast ekki á auglýstum tíma geta haft samband við þjónustuver Grindavíkurbæjar í síma 420-1100.  
  • Afhending lykla fer fram í Kvikunni.

Í tilkynningunni segir að í kjölfar verðmætabjörgunaraðgerða á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra undanfarnar vikur hefur farið fram vinna við lagfæringar á stofnlögnum hitaveitukerfis bæjarins og því er unnt að auka þrýsting og rennsli á heitu vatni til bæjarins.

Í framhaldi fóru pípulagningamenn á vegum Almannavarnadeildar yfir hitaveitugrind fasteignanna. Þrýstijafnarar voru stilltir og jafnvægi komið á heitavatnsnotkunina. Eftir að hitaveitugrindin var stillt fór óháður pípulagningameistari á vegum Félags Pípulagningarmeistara yfir grindina og staðfesti að hún sé stillt eins og best verður á kosið miðað við aðstæður. Að úttekt lokinni fellur niður eftirlit Almannavarna með fasteigninni. Komi til rýmingar vegna frekari jarðhræringa eða eldgosa mun slíkt eftirlit haldast hjá eigendum fasteigna þar sem eftirlit Almannavarnadeildar var bundið við verðmætabjörgunaraðgerðir þar sem alvarlegum frostskemmdum á fasteignum var varnað í ársbyrjun 2024.

Komist eigendur ekki sjálfir að sækja lykla þarf að framvísa skriflegu umboði til þess að geta sótt lykla fyrir þeirra hönd. Þeir eigendur sem komast ekki á auglýstum tíma geta haft samband við þjónustuver Grindavíkurbæjar í síma 420-1100.  Afhending lykla fer fram í Kvikunni.

Við afhendingu eigna munu pípulagningamenn á vegum Almannavarnadeildar ekki opna fyrir heitt neysluvatn í lagnagrind fasteignarinnar. Ákvörðun um að opna fyrir heitt neysluvatn inn á fasteignina er á ábyrgð fasteignareiganda. Ekki er mælt með því að opnað sé fyrir neysluvatnsloka á meðan ekki er dvalið í húsi. Ef hleypa á heitu neysluvatni inn á fasteignina er mælt með því að húseigandi fái pípulagningarmann til að ástandskanna lagnirnar til þess að koma í veg fyrir og lágmarka líkur á tjóni innanhúss.

Rétt er að beina fyrirspurnum tengt heitu vatni til HS Veitna. Fyrirspurnum vegna neysluvatns (kalt vatn) er rétt að beina til Grindavíkurbæjar.

Athygli er vakin á Félagi pípulagningameistara, sími 591-0100 eða heimasíða www.piparinn.is, ef þörf er á þjónustu pípulagningamanna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila