Í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur var gestur þáttarins Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins en í þættinum var meðal annars rætt um verðbólguna, orkuskortinn og raforkumarkaðinn.
Um verðbólguna sagði Eyjólfur meðal annars að hann óttist að nú sé verðbólgan orðin að þrálátri verðbólgu og ljóst að ef ekki verður komið böndum á hana skjótt, muni stefna hér í krísuástand. Þá segir Eyjólfur að allt tal um að upptaka Evru sé einhver leið til frelsunar frá verðbólgunni sé ekki rétt því það sé verðbólga í Evrulöndunum einnig, bara mismunandi mikil eftir löndum.
Það þarf neyðarlög vegna orkuskorts
Um orkuskortinn segir Eyjólfur að hann sé gott dæmi um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Orkuskorturinn sé bein afleiðing af því að ekki hafi verið virkjað hér um langa hríð, meðal annars vegna þess að menn komi sér ekki saman innan ríkisstjórnarinnar hvar eigi að virkja og það sé grafalvarlegt mál. Setja hafi þurft hér lög í neyð af því ríkisstjórnin greip ekki til neinna aðgerða þrátt fyrir að hafa mátt vita að orkuskortur væri yfirvofandi.
Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan