Árleg íbúðaþörf Skagafjarðar þrefaldast í nýrri húsnæðisáætlun

Byggja þyrfti þrefalt fleiri íbúðir á ári hverju í Skagafirði en áður var talið til að halda í takt við fólksfjölgun. Fjölga þarf íbúðum í byggingu í sveitarfélaginu, en þörf er á um 80 íbúðum þar á næstu fimm árum til að til að sinna fyrirhugaðri íbúðaþörf. Þetta kemur fram í endurskoðaðri húsnæðisáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024. Þetta kemur fram í samantekt Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.

Nýja húsnæðisáætlunin gerir ráð fyrir að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 4.600 talsins árið 2028. Líkt og myndin hér að neðan sýnir þá hefur fjöldi íbúa í sveitarfélaginu aukist um 7,4% frá árinu 2021 og hefur mannfjöldaaukningin verið nokkuð umfram fyrri spár. Samkvæmt miðspá um mannfjöldaþróun þá áætlar sveitarfélagið að mannfjöldi aukist um 21,9% næstu 10 árin.

Samkvæmt húsnæðisáætluninni er áætlað að þörf verði fyrir um 16 íbúðir á ári, 81 íbúð á næstu 5 árum og 165 íbúðir á næstu 10 árum.

Myndin hér að neðan sýnir árlega áætlaða íbúðaþörf, auk uppsafnaðrar íbúðaþarfar samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélagsins síðustu árin. Húsnæðisþörfin hefur aukist með hverri endurskoðun húsnæðisáætlunar, en í fyrri áætlunum var hún metin í kringum 5 íbúðir á hverju ári á tímabilinu 2023-2032.

Í íbúðatalningu HMS voru 32 íbúðir í byggingu í september 2023 sem var sami fjöldi og í mars sama ár. Flestar íbúðirnar voru á síðari stigum framkvæmdar, þ.e. fokheldar eða lengra komnar, en líkt og myndin hér að neðan sýnir þá voru 28 af þeim 32 íbúðum í byggingu við síðustu íbúðatalningu á þeim framvindustigum. Fjöldi íbúða í byggingu er ekki í takt við áætlaða íbúðaþörf næstu ára samkvæmt mannfjöldaspá húsnæðisáætlunar og þörf fyrir að fjölga íbúðum í byggingu. Á árinu 2023 komu 8 fullbúnar íbúðir á markað í Skagafirði og má telja líklegt að um 12 íbúðir bætist við í ár mv. stöðu framkvæmda í september síðastliðinn, en ein íbúð telst fullbúin framan af ári.

Markmið sveitarfélagsins er að tryggja að mæta megi mismunandi þörfum fyrir íbúðir með framboði af fjölbreyttu húsnæði í öllum þéttbýliskjörnum Skagafjarðar. Aukning er í eftirspurn eftir minna húsnæði og hefur þeirra eftirspurn verið svarað með úthlutun fleiri lóða fyrir par-, rað- og fjölbýlishús.

Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir 68 íbúðir svo lóðaframboð mæti áætlaðri íbúðaþörf næstu ára en skipuleggja þarf lóðir fyrir fleiri íbúðir ef tryggja á nægjanlegt framboð nýrra íbúða til næstu 5 ára sem og lengri tíma. Lóðaframboð sveitarfélagsins má sjá á mynd hér að neðan, þar sem 44 lóðir eru byggingarhæfar og 24 lóðir í samþykktu deiliskipulagi eða á framtíðarsvæði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila