Arnar Þór boðar ráðherra og þingmenn til fundar um WHO

Arnar Þór Jónsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sent öllum þingmönnum og ráðherrum boð á netfund um farsóttarsáttmála Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og býður þeim að ræða þetta mikilvæga mál á fundinum.

Arnar Þór ritar um málið í dag á vefsíðu sinni þar sem hann vekur athygli á málinu og bendir meðal annars á að þær breytingar sem verið sé að gera á sáttmála WHO og alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni sem að öllu óbreyttu muni taka gildi eftir tíu mánuði muni geta haft mjög alvarlegar afleiðingar hér á landi. Þegar þetta er ritað hefur aðeins einn ráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra svarað boði Arnars og tveir þingmenn, Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins.

Hér fyrir neðan má lesa færslur Arnars Þórs:

Á sviði heilbrigðismála eru nú miklar breytingar í farvatninu. Þessar breytingar er verið að keyra á ógnarhraða í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Breytingarnar eru gerðar í ört stækkandi skrefum og gert er ráð fyrir æ meiri inngripum WHO í stjórn þessara mála.  

Eins og ég les þetta nú munu breytingar sem gerðar voru hjá WHO á síðasta ári taka gildi 1. desember nk., þ.e. ef Alþingi hafnar þeim ekki. Þegar lagt er mat á stöðu Íslands í þessu samhengi er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að forsætisráðherra landsins gegnir nú jafnframt stöðu sendiherra WHO.

Í því ljósi er væntanlega sérstök ástæða fyrir landsmenn að vera á varðbergi og vera upplýstir um þá þróun sem er að eiga sér stað. Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu, því lestin brunar sífellt hraðar: Breytingar sem nú er verið að gera nú á sáttmála WHO og alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni munu að öllu óbreyttu taka gildi eftir aðeins 10 mánuði. Þær breytingar eru til þess fallnar að gjörbylta öllu innlendu stjórnarfari til hins verra, t.a.m. með því að afnema öryggisventla stjórnarskrárinnar þegar yfirstjórn WHO kýs að lýsa yfir PHEIC (Public Health Emergency of International Concern). 

Hér er grafalvarlegt mál á ferð sem ráðherrar, alþingismenn, lögmenn, fjölmiðlamenn og allir áhugamenn um stjórnmál verða að þekkja til, því afskipta- og áhugaleysi er óverjanleg afstaða.

Ég býð öllum sem fræðast vilja nánar um þetta til fundar (á Netinu) síðar vikunni með James Roguski og Merryl Nass, en bæði hafi þau kynnt sér efnið mjög vel. Á tímum hjarðhugsunar og samstilltrar þagnar um alvörumál eru slíkar raddir dýrmætar og allt of sjaldgæfar. Áhugasamir geta sent mér póst á arnarthor@griffon.is Ég mun í framhaldinu senda út fundarboð með nánari tímasetningu.

Hér að neðan má lesa seinni færslu Arnars um málið

Fundarboð til þingmanna, sem má dreifast sem víðast

Í framhaldi af færslu minni nú í morgun um WHO sendi ég neðangreindan tölvupóst til allra þeirra sem nú sitja á þingi. Pósturinn var sendur kl. 14.34 í dag. Nú þegar klukkan er að verða 17.30 hefur aðeins einn maður svarað, nánar tiltekið Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem hefur boðið mér á fund til að ræða málin. Willum Þór á að mínu mati miklar þakkir skildar fyrir þátt sinn í að vinda ofan af þeim stjórnarfarslegu óförum sem Íslendingar rötuðu í hér í kófinu. Er Willum eini sjálfstæðismaðurinn á Alþingi? Af hverju heyrist ekkert frá kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins?

Áður en dregin verður sú ályktun að alþingismenn okkar séu áhugalausir um fullveldi Íslands og þá mikilsverðu stjórnskipunarþætti sem í húfi kunna að vera, þá skora ég á alla lesendur þessarar bloggsíðu að framsenda áskorun mína til allra sem vettlingi geta valdið hérlendis með ósk um að viðkomandi sendi mér línu og óski eftir fundarboði. Eins og staðan lítur út núna er ekki nóg að menn „læki“ á FB eða sitji tuðandi yfir tölvunni heima hjá sér. Hér þarf að eiga sér stað raunveruleg vakning meðal venjulegs fólks. Ekkert annað getur orðið til þess að vekja kjörna fulltrúa til meðvitundar um skyldur sínar og ábyrgð.

Hér er pósturinn sem fór til þingmanna og dreifa má sem víðast:

Ágætu alþingismenn.

Á 153. löggjafarþingi (2022-2023) lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til sóttvarnalaga (þskj. 671 – 529. mál). Um er að ræða stjórnarfrumvarp sem fór í gegnum 1. umræðu. Í frumvarpinu er vísað til alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar alls fimmtíu og tvisvar sinnum. Á alþjóðlegu heilbrigðisþingi WHO sem fram fer í maí 2024 verða greidd atkvæði um breytingar á tilvísaðri alþjóðaheilbrigðisreglugerð. Meirihlutasamþykki dugar til að gera breytingarnar bindandi og þær munu taka gildi 12 mánuðum síðar eða 1. júní 2025, nema því aðeins að þjóðþing aðildarþjóða hafni breytingunum innan 10 mánaða.

Á sama tíma er verið að undirbúa breytingar á sáttmála WHO um heimsfaraldur (e. pandemic). Gert er ráð fyrir að þær breytingar taki gildi í nóvember 2025 að undangenginni fullgildingu aðildarríkja.

Í breytingunum felast ýmis atriði sem eru ósamrýmanleg lýðræðislegu stjórnarfari, grafa undan stjórnarskrám, afnema hömlur á stjórnvöld, innleiða ritskoðun og upplýsingastjórnun, afhenda völd til embættismanna WHO án samsvarandi ábyrgðar, og gætu falið í sér aðför að almennum mannréttindum og mannlegri reisn. Svo er að sjá sem allt þetta geti verið sett af stað með einfaldri ákvörðun æðstu stjórnar WHO um svonefnt „PHEIC“ (Public Health Emergency of International Concern). Gangi áætlanir WHO eftir mun slík ákvörðun hafa bindandi áhrif gagnvart aðildarríkum stofnunarinnar.

Sem fyrstu og fremstu vörslumenn stjórnarskrár lýðveldisins og þess stjórnarfars sem kennt er við frjálslynt lýðræði ber þingmönnum Íslendinga að vera vel vakandi gagnvart þeim erlendu reglum sem stjórnvöld kunna að vilja innleiða hérlendis. Því ber þingmönnum að hafa opin augu gagnvart þróun á vettvangi WHO sem miðar að því að gengisfella sjálfsákvörðunarrétt þjóða og innleiða alheimsstjórn án tilhlýðilegs aðhalds, sem rýrir fullveldisrétt aðildarríkja, er ósamrýmanlegt lýðræðislegum stjórnarháttum og innleiðir nýtt stjórnarfar sem uppfyllir ekki kröfur um stjórnskipulegt meðalhóf og grundvallarskilyrði réttarríkis um lögmæti, þrengir að tjáningarfrelsi og getur falið í sér ógn við almenn mannréttindi. Alþingi má ekki samþykkja / innleiða reglur sem hefðu slíkar afleiðingar í för með sér.

Hér er grafalvarleg þróun í gangi sem ráðherrar, alþingismenn, lögmenn, fjölmiðlamenn og allir áhugamenn um stjórnmál verða að þekkja til, því afskipta- og áhugaleysi er óverjanleg afstaða.

Ég býð öllum sem fræðast vilja nánar um þetta til fundar (á Netinu) síðar vikunni með James Roguski og Merryl Nass, en bæði hafi þau kynnt sér efnið mjög vel. Á tímum hjarðhugsunar og samstilltrar þagnar um alvörumál eru slíkar raddir dýrmætar og allt of sjaldgæfar. Áhugasamir geta sent mér póst á arnarthor@griffon.is Ég mun í framhaldinu senda út fundarboð með nánari tímasetningu.

Ég vænti þess að þingmenn sýni ofangreindu viðeigandi áhuga og óski eftir að fá að vera viðstaddir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila