Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi: Verðum að verja sjálfstæði og fullveldi Íslands

Gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu í gær var Arnar Þór Jónsson lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Á miðvikudaginn í síðustu viku hélt Arnar Þór blaðamannafund á heimili sínu í Garðabæ þar sem hann tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Arnar hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og samhliða því að tilkynna um framboð sitt til forseta sagði Arnar Þór sig úr flokknum og frá varaþingmennsku.

Í upphafi þáttar sagði Arnþrúður að þessi ákvörðun hans hefði komið flatt upp á marga og spurði Arnar hvernig þetta hefði borið að. Arnar svaraði að hann hafi ekki tekið þessa ákvörðun í flýti heldur að vandlega yfirlögðu ráði. Þessi ákvörðun eigi sér í raun langan aðdraganda, ef hann hugsi til baka, því hann hafi um margra ára skeið verið að fjalla um lögin og hlutverk laganna í samfélaginu.

Ákvörðunin sé tekin með hliðsjón af því sem hann hafi verið að skrifa í mörg ár og með hliðsjón af þeirri þróun sem sé að eiga sér stað í samfélagi okkar og á hinu pólitíska sviði þar sem að stöðugt hraðar sé verið að veikja löggjafarvaldið og grundvallarstofnanir lýðveldisins. Þá vísar hann ekki aðeins til Alþingis heldur líka til Hæstaréttar. Arnar Þór bendir einnig á veikingu framkvæmdarvaldsins og segir að framkvæmdarvaldið sé rauninni í komið með annan fótinn og mögulega báða suður til Brussel, það starfi að honum sýnist meira í þágu erlendra stofnana heldur en íslensks almennings.

Arnar segir: „Við erum komin á þann stað að við getum ekki mikið lengur haldið áfram að láta eins og ekkert sé. Við getum ekki lengur látið fara frá okkur ríkisvald í þessum mæli. Við getum ekki haldið áfram að veikja undirstöður lýðveldisins því að áhættan og afleiðingin verður sú að efnahagslíf okkar veikist eins og er að gerast með þessum kolefnissköttum frá Evrópusambandinu. Eins og er að gerast með því að yfirráð okkar yfir orkuauðlindinni er að veikjast sýnilega og eins og er að gerast með því að Alþingi er sjálft að leggja fram frumvarp um að gera erlend lög sem eiga að ganga framar íslenskum lögum [Bókun 35] ef þetta tvennt rekst á.

Þetta er komið í rauninni á það alvarleikastig, eftir 30 ár í EES, að það væri óábyrgt af kjósendum þessa lands og óábyrgt af mér sem frambjóðanda núna í þessum kosningum og það er það mjög óábyrgt af hálfu ríkisstjórnar Íslands og Alþingis að láta eins og allt sé í himnalagi.

Það er ekki lengur allt í himnalagi. Við erum að missa frá okkur sjálfstæði okkar, þetta var draumur fyrri kynslóða, Íslendingar gengu með þessa hugsjón í maganum öldum saman […]. Rétt eins og Sigurður Líndal benti á þá hafi Íslendingar mótmælt því um aldir að konungur sett lög hér einhliða. Íslendingar voru meðvitaðir um að við viljum eiga einhverja hlutdeild í því sem lögin segja. Þjóð sem hefur ekkert með efni laganna að segja er að setja sig í mjög viðkvæma stöðu. Eins og menn sem hafa ekkert með það að segja hvernig lífi þeirra er stjórnað. Þeir eru að setja sig í mjög viðkvæma stöðu.“

Pétur spyr í framhaldinu: „Það sem þú ert að segja í raun og veru að það er kominn tími til að verja sjálfstæði og fullveldi Íslands?“ Arnar Þór: „Við getum ekki beðið mikið lengur með það.“

Margt athyglisvert kom fram hjá frambjóðandanum og má þar nefna stjórnmálaástandið á Íslandi og mikilvægi forsetaembættisins í ljósi réttarsögunnar.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila