Arnar Þór Jónsson gefur kost á sér til embættis forseta Íslands

Arnar Þór Jónsson lögmaður, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi héraðsdómari hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Arnar Þór hélt rétt í þessu.

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri var stödd á blaðamannafundinum og greindi hlustendum frá því í beinni útsendingu í Símatímanum í dag sem kom fram á fundinum.

Á fundinum kom fram að Arnar Þór sem er fyrsti einstaklingurinn sem staðfestir framboð sitt í komandi forsetakosningum telur að Íslendingar séu á góðri leið með að missa sjálfstæðið og hann vilji leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir að svo verði. Arnar sagði á fundinum að það væru of margir á Alþingi sem ekki hefðu brugðist við í tæka tíð gagnvart því erlenda valdi sem sæki að stjórn landsins og málefnum Íslendinga og afar brýnt væri að þjóðin fengi að koma meira að því að hafa skoðanir á hlutunum.

Arnar Þór Jónsson og eiginkona hans Hrafnhildur Sigurðardóttir

Arnþrúður segir að lesa megi úr orðum Arnars að hann leggi mikla áherslu á beint lýðræði og muni hiklaust beita málskotsrétti forseta og setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og þannig koma valdinu meira til þjóðarinnar sem eigi að vera uppspretta valdsins.

Arnþrúður segir Arnar hafa haldið áhrifamikla ræðu þar sem hann rakti tilgang stjórnarskrárinnar og hvernig hún hafi verið upphaflega hugsuð og hvað hafi farið úrskeiðis varðandi túlkun hennar undanfarin ár. Hann segir Ísland vera orðið alltof háð erlendu valdi og hér ásælist menn okkar gjöfula land og koma þurfi í veg fyrir að slíkt háttarlag fái framhaldslíf.

Arnþrúður segir ákvörðun Arnars koma nokkuð á óvart því menn hefðu haldið að Arnar ætlaði sér enn frekari framgöngu á sviði stjórnmála. Arnar virðist hins vegar sjá hlutina í öðru ljósi og telja hans þekkingu og kunnátta nýtist betur við stjórn landsins að því leytinu til sem forsetaembættið getur beitt með hliðsjón af stjórnarskránni.

Aðspurð um hvort hann hafi rætt um bókun 35 á blaðamannafundinum segir Arnþrúður að bókun 35 hafi gert það að verkum að hann hafi gert upp hug sinn varðandi framboð. Það hafi slegið Arnar Þór þegar varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem þáverandi utanríkisráðherra og flutningsmaður tillögunnar Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir sagði að ekki þyrfti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þá hafi Arnar séð að stjórnmálin myndu ekki standa vörð um fullveldi þjóðarinnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila