Arnar Þór: Mikilvægt að verja þjóðríkið fyrir alþjóðavæðingunni- málfrelsið mikilvægast

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari segist ætla að efla málfrelsið og beita sér gegn þeirri þöggun sem ríkt hefur í samfélaginu ef hann verður kjörinn forseti Íslands. Besta leiðin til styrkja stöðu þjóðarinnar sé einmitt að efla málfrelsið. Þetta kom fram hjá Arnari þór í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Arnar segir mjög mikilvægt að í anda réttarríkisins séu sjónarmið um málfrelsi varin og það sé eitt af því sem forseti á sannarlega að gera undir þeim merkjum að verja stjórnarskrána. Þá sé einnig mjög mikilvægt að verja þjóðfélagsgerðina með því að verja þjóðríkið sem og þau samfélagslegu gildi sem Ísland byggir á.

Smáþjóðir eins og Ísland geta verið í hættu

Arnar segir að það sé ekki síst mikilvægt að verja þjóðríkið fyrir þeirri alþjóðavæðingu sem nú tröllríður öllu og segir Arnar að það geti verið að smáþjóðir eins og Ísland eigi á meiri hættu á að verða undir í alþjóðavæðingunni. Þá spyr Arnar hvort það geti verið að þingmenn og ráðherrar lítillar þjóðar séu hugsanlega viðkvæmari gagnvart því að sýna undirgefni erlendum valdastofnunum í von um um að hugsanlega þeir fái þægilega innivinnu hjá einhverri af þessum stofnunum eftir að stjórnmálaferli þeirra lýkur. Það sé nefnilega svo að of margir kjósa að horfa framhjá því að verið sé að framselja hér vald til erlendra stofnana. Meðal annars ákvörðunarvald í raforkumálum og ákvörðunarvald yfir hvaða lög eigi að gilda um íslensk fyrirtæki sem og yfirtöku á heilbrigðismálum að hluta.

Samspil yfirþjóðlegs valds og stórfyrirtækja

Verið sé að veita stórum fjárhæðum til erlendra stofnana. Þannig verður til mikið áhrifavald sem notað er til þess að hafa áhrif á þjóðríkin og úr verður mikill vítahringur. Þannig verður til samspil hins mikla yfirþjóðlega valds og stórfyrirtækja sem hafa keypt sig til áhrifa og geta sogað til sín vald út úr þjóðríkjunum. Þannig veikist staða almennra borgara sem þurfi að byggja upp innviði fyrir þessi fyrirtæki.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila