Arnar Þór: Þjóðin fer með fullveldisréttinn

Forsetaembættinu er ekki ætlað að vera tildurembætti heldur er því ætlað að vera mótvægi við þingið og ríkisstjórnina þegar þess þarf. Ef lög ganga bersýnilega í berhögg við stórnarskrá þarf forseti ekki að fá undirskriftir frá almenningi til þess að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta segir Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Arnar segir að það sé hlutverk forseta að grípa inn í þegar þingið eða ríkisstjórnin hefur farið út af sporinu enda er eitt af hlutverkum forseta að standa vörð um undirstöður þjóðskipulagsins, stjórnarskrána og lýðræðislega stjórnarhætti.

Þetta þýði að ef það kæmi fram frumvarp sem skýrlega gengi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar þurfi forseti ekki að bíða eftir því að safnað yrði undirskriftum til þess að geta vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Segir Arnar að vel sé hægt að sjá fyrir sér að þær aðstæður gætu komið upp að það þyrfti að grípa til fumlausra vinnubragða.

Fólk hefur áhyggjur af stjórnmálaástandinu

Arnar Þór segir eitt af því sem hann hafi tekið eftir í samtölum sínum við fólk að það hafi áhyggjur af stjórnmálaástandinu í landinu. Eitthvað sé farið úr skorðum og það séu ákveðin lausatök varðandi innleiðingu erlendra reglna og gullhúðun erlendra reglna sem og óvissa í innflytjendamálum. Þetta sé eitt af því sem forseti þurfi að vera vakandi yfir. Þá hafi fólk líka áhyggjur af raforkumálum og auðlindamálum. Arnar segir að hann sé ekki að segja að forseti eigi að fara að blanda sér inn í stjórnmálaumræðu líðandi stundar hverju sinni heldur þurfi forseti að vera meðvitaður um hvað fólk sé að hugsa.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila