Ásdís Rán: Íslendingar opnir fyrir nýjungum – vill þyrlupall á Bessastaði

Ásdís Rán Gunnarsdóttir athafnakona og forsetaframbjóðandi hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu af því að búa og starfa í útlöndum og hefur því kynnst fjölda fólks víða um heim. Hún segir að þó Ísland sé svolítið einangrað hér á norðurhjaranum þá séu Íslendingar mjög opnir fyrir nýjungum og hér séu margvísleg góð tækifæri. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásdísar í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Ásdís hefur meðal annars um árabil búið í Búlgaríu sem hún kallar villta austrið. Þar sé töluvert um glæpi og þar er fólk svolítið frjálst og gerir bara það sem það vill gera. Í Rúmeníu þar sem hún hefur einnig búið sé það svolítið öðruvísi því Rúmenar séu talsvert reglufastari.

Talsverður munur á Svíum og Þjóðverjum

Þá hefur hún einnig búið í Þýskalandi og Svíþjóð og segir hún mjög mikinn mun á þessum þjóðum. Þjóðverjarnir séu svolítið erfiðir að eiga við og ef þú ætlar til dæmis í heimsókn þá sé það svo í Þýskalandi að það þurfi að plana slíkt með viku fyrirvara. Svíarnir séu hins vegar þannig að þeir séu bara til í allt og mjög skemmtilegir.

Íslendingar eru síðan þrátt fyrir einangrun hér mjög opnir fyrir nýjungum. Hér sé gaypride af þeirri stærðargráðu sem hvergi annars staðar sést.

Ásdís lærður þyrluflugmaður

Ásdís greindi frá því í þættinum að hún sé með réttindi til að fljúga þyrlum sem taka allt að sjö manns. Hún segir námið þungt og krefjandi en í senn skemmtilegt, en slíkt nám sé ekki kennt hér á landi. Fyrst sé bóklegt flugstjóranám tekið og svo í framhaldinu þyrlunám.

Þyrlupallur á að vera á Bessastöðum

Hún segir að þegar flogið er yfir hverfi ríka fólksins í Búlgaríu þá sé þar þyrlupallur við annað hvert hús og aðspurð um hvort hún myndi vilja sjá þyrlupall á Bessastöðum segir Ásdís að það sé algjörlega málið. Það sé í raun kjánalegt að á meðan það sé þyrlupallur við annað hvert hús í hverfi ríka fólksins í Búlgaríu sé enginn þyrlupallur á Bessastöðum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila