Ásdís Rán: Vill gera forsetaembættið glæsilegra – vísa á málum í þjóðaratkvæði

Ásdís Rán Gunnarsdóttir athafnakona og forsetaframbjóðandi sem í morgun tilkynnti að hún gæfi kost á sér til embættis forseta Íslands segir að hún vilji gera embættið glæsilegra, gera gangskör í því að markaðssetja Ísland með afgerandi hætti og beita áhrifum sínum til þess að láta gott af sér leiða fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Þetta kom fram í máli Ásdísar Ránar en hún var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Ásdís segir að hún telji forseta hafa meiri völd en margir telja og það sé áhrifavaldið sem hún vill nota til þess að bæta úr málum öryrkja og eldri borgara svo dæmi sé tekið. Hún segir að henni finnist ekki rétt að forseti eigi að vera pólitískur heldur sé það frekar hlutverk forseta að leggja við hlustir og heyra hvað þjóðin og ekki síst minnihlutahópar hafi að segja og koma því áleiðis til stjórnmálamanna. Það sé svo þeirra að koma málunum til betri vegar. Aðspurð um hvort hún myndi nýta málsskotsréttinn segir hún að það myndi hún gera verði hún vör við að upp komi óánægja á meðal meirhluta þjóðarinnar um einhver mál. Þá sé það hlutverk forseta að taka af skarið og leyfa fólkinu að kjósa um það.

Forsetaembættið þarf að hafa glæsileika

Hún segist sjá fyrir sér að taka forsetaembættið á þann stað þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti hvað varðar glæsileika. Ásdís Rán segir að forseti eigi ekki að vera pólitískur heldur eigi það að vera hlutverk forseta að markaðssetja Ísland með öflugum hætti og all það góða sem gert er og framleitt hér. Forseti á að kynna land og þjóð og vekja athygli á auðlindum landsins, sem og matvælum, snyrtivörum og listgreinum.

Hefur starfað lengi erlendis og markaðssett Ísland

Ásdís sem hefur starfað í fjölda landa við ýmis störf segir að í störfum sínum hafi hún einmitt verið mjög dugleg við að kynna og markaðssetja Ísland og hún telji sig þess vegna mjög vel fallna til þess að sinna þeim verkefnum sem forseti. Hún stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki 19 ára gömul hér á landi, hefur skrifað bók og ýmislegt fleira. Hún segir að hún hafi alltaf náð að framkvæma það sem hana langar til að gera og hafi náð því með því að vinna að markmiðum sínum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila