Ásthildur Lóa leggur fram tvö ný lagafrumvörp á Alþingi

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, mun í dag leggja fram tvö ný lagafrumvörp á Alþingi.

Fyrra frumvarpið gerir ráð fyrir að almenn sala á markaði verði meginregla við nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis, í stað þess að vera undantekning eins og nú er. Markmiðið er að koma í veg fyrir að eignir seljist langt undir markaðsverði á uppboði, eins og gerðist í hneykslismáli í Reykjanesbæ í fyrra þar sem hús var selt á nauðungarsölu fyrir aðeins þrjár milljónir króna.

Seinna frumvarpið leggur til að fyrningarfrestur skaðabótakrafna einstaklinga á hendur stjórnvöldum og öðrum opinberum aðilum verði lengdur úr fjórum árum í tíu ár. Rökin fyrir breytingunni eru mikill aðstöðumunur milli einstaklinga og ríkisins í slíkum málum. Oft á fólk erfitt með að átta sig á því að brotið hafi verið á réttindum þess af hálfu stjórnvalda og einnig getur verið erfitt að sanna tjón sitt þar sem mikilvæg gögn eru gjarnan í höndum stjórnvalda. Má þar nefna meðferðina á drengjunum í Breiðuvík og meðferðina á börnum sem dvöldu á vöggustofum á síðustu öld.

„Með þessum frumvörpum erum við að stíga mikilvæg skref í þá átt að bæta réttarstöðu almennings gagnvart handhöfum opinbers valds. Of mörg dæmi eru um að fólk verði fyrir óréttlætanlegu tjóni af völdum stjórnvalda og við viljum sporna gegn því.“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila