Átakanlegt að sinna börnum sem þurfa að glíma við sjónskerðingar ævilangt

Guðmundur Viggósson augnlæknir sem er ný sestur í helgan stein segir að ferill hans sem augnlæknir hafi kennt honum margt í lífinu. Starfið sé mjög gefandi þó stundum komi upp afar erfiðar stundir því það getur verið mikið áfall fyrir fólk og aðstandendur sem uppgvöta að barn sem fæðist inn í fjölskylduna þurfi að glíma við sjónskerðingar eða blindu í framtíðinni. Þetta var meðal þess sem fram kom í viðtali Más Gunnarssonar við Guðmund Viggósson í þættinum Unga fólkið.

Guðmundur segir það mjög þungbært að færa foreldrum þær fréttir að ung börn þeirra eigi eftir að glíma við ævilanga sjónskerðingu. Hann segir að það sé mjög algengt að þegar svona tilvik komi upp þá horfi fólk oft til langrar framtíðar og finnist erfitt að takast á við það að einstaklingurinn sem glímir við sjónskerðingu komi kannski ekki til með að upplifa eða gera eitthvað sem öllum öðrum finnist svo sjálfsagt að geta gert.

Áhyggjufullir foreldrar blindra barna

Hann segir að honum sé mjög minnisstætt tilvik þar sem móðir sem átti mjög erfitt þegar hún fékk þær fregnir að barnið hennar yrði blint. Konan grét í margar vikur og þegar hún var spurð að því hvað það væri sem legðist svo þungt á hana þá var það að hún var að hugsa til þess að eftir 17 ár þegar barnið kæmist á bílprófsaldurinn þá gæti það ekki fengið að taka bílpróf eins og jafnaldrarnir. Guðmundur segir að oft sé fólk að velta svona hlutum fyrir sér, einhverju sem er langt fram í framtíðinni. Fólk óttist að viðkomandi einstaklingur eigi kannski ekki sömu möguleika á að eignast maka og annað slíkt. Því sé það mjög þungt oft á tíðum að færa foreldrum slík tíðindi og reyna að veita á sama tíma foreldrunum einhverja huggun.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila