Bækurnar munu lifa af þó hljóðbókum fari fjölgandi

Bækur standa alltaf fyrir sínu og munu halda áfram að standa af sér þá þróun sem hefur verið að ryðja sér til rúms, til dæmis með komu hljóðbóka sem fer sífellt fjölgandi. Þetta segir Jakob F. Ásgeirsson bókaútgefandi og eigandi Uglu útgáfu en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Jakob segir að það eina sem kunni að breytast sé að upplögin verði ekki eins stór en að það sé tvennt ólíkt að setjast niður með bók í hönd og lesa eða hlusta á hljóðbók.

Hann segir þó ákveðið kynslóðabil vera greinanlegt því barnabækur, skáldverk, spennusögur og fleiri bókaflokkar seljist mjög vel en þegar kemur að bókum fyrir ungmenni þá séu þær að seljast afar illa.

Hann segir að frá upphafi hafi Ugla gefið út 430 titla og þeim hafi farið mjög fjölgandi síðustu ár og núna árið 2022 gefi Ugla út um 60 titla sem sé meira en ein bók í hverri viku. Það segi þó ekki alla söguna því það sé salan sem gildi og hún geti verið misjöfn, allt eftir því hvað gefið sé út. Vinnan sé hins vegar sú sama en eftir að ríkið hóf að endurgreiða hluta útgáfukostnaðar hafi fjárhagsleg staða útgefenda batnað til mikilla muna og það styrki að sjálfsögðu stöðu bókarinnnar.

Hann segir að þýddar bækur seljist ekki eins vel og hann myndi vilja sjá og segir að skýringuna megi að einhverju leyti rekja til þess að ungt fólk kjósi að lesa bækur á ensku og það sé miður því margar hverjar þýddar bækur séu mjög góðar.

Nú sé til dæmis að koma út þýdd bók eftir höfundinn Anthony Burgess sem heiti Veldi hina illu. Um sé að ræða stóra og mikla bók sem fjalli um rómaveldi til forna og keisarana, sem sé mjög fjörmikil bók. En hann segir að úrvalið sem sé að koma út fyrir jólin sé mjög mikið eða um 30 titlar en sjá má úrvalið sem bókaútgáfan Ugla hefur upp á að bjóða með því að smella hér.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila