Baldur Þórhallsson : Gefur svar um forsetaframboð eftir nokkra daga

Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði sem 20 þúsund stuðningsmenn hafa skorað á hann að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Aðspurður sagði Baldur að það sé ljóst að hann verði að gefa svar á allra næstu dögum um hvort hann hyggist gefa kost á sér eða ekki. Forsetinn má aldrei vera meðvirkur með Alþingi og segist hann hiklaust senda mál í þjóðaratkvæðgreiðslu ef þingið fari fram úr sér við lagasetningu.

Baldur segir að hann og Felix Bergsson eiginmaður hans hafi verið svolítið feimnir gagnvart þessari hugmynd og segir að þegar Gunnar Helgason leikari vinur þeirra hafi sett af stað stuðningssíðu rétt fyrir miðnætti á mánudegi fyrir viku. Þeir hafi varla vitað hvaðan á þá stóð veðrið þegar þeir vöknuðu á þriðjudagsmorgni þegar voru komnir hátt í 10.000 manns á síðuna en núna eru komnir 20.000 manns.

Forsetaframbjóðandi verður að hafa eitthvað fram að færa

Hann segir að þeir Felix hafi hugsað málið af mikilli alvöru og segir Baldur að til þess að hann geti tekið þessa ákvörðun þurfi tvennt að vera til staðar. Í fyrsta lagi þurfi að vera málefnagrundvöllur því forsetaframbjóðandi verði að hafa eitthvað fram að færa. Í öðru lagi þá sé mjög mikilvægt að það sé víðtækur stuðningur við framboðið og það séu ekki bara einstaklingar í hans eigin búbblu eins og Baldur komst að orði.

Forseti getur haft muni meiri áhrif

Hann segir að honum finnist stundum gert of lítið úr forsetaembættinu og þeir sem þar sitji geti haft miklu meiri áhrif ef menn vilja. Forseti geti til dæmis leitt fólk og félagasamtök saman til ýmis konar samstarfs og greitt þannig götu þeirra sem vilja koma einhverju til leiðar sem sé til heilla fyrir samfélagið.

Má ekki skerða tjáningarfrelsi eða mannréttindi

Aðspurður um hvort hann myndi sem forseti beita málsskotsrétti forseta skv. 26. gr. stjskr., segir Baldur að hann sé á þeirri skoðun að mikilvægt sé að forseti virði þingræðið en að því sögðu sé einnig mikilvægt að forseti grípi inn í finnist honum þingið vera komið fram úr sjálfu sér, forseti megi aldrei vera meðvirkur gagnvart þinginu. Hann segir ef fram kæmi frumvarp sem sneri að því að takmarka tjáningarfrelsi eða skerða mannréttindi á einhvern máta þá myndi hann hiklaust senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lög um aðild að Evrópusambandinu beint í þjóðaratkvæðagreiðslu

Hvað varði samninga sem skuldbindi þjóðina eða snúi að valdaframsali segir Baldur að það yrði að meta í hverju tilviki fyrir sig. En kæmi til dæmis upp sú staða að samþykkja aðild að Evrópusambandinu þá sé það mál sem Baldur segir að þjóðin eigi alltaf að eiga síðasta orðið um.

Hlusta má á ítarlegri umræður um sýn Baldurs á forsetaembættið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila