Heimsmálin í dag: Bandaríkjamönnum mikið áfall að Kommúnistar komust til valda á Kúbu

Kúbudeilan var deila sem hæglega hefði getað farið úr böndunum með skelfilegum afleiðingum fyrir allt mannkynið en sem betur fór báru Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum sú gæfa að leysa úr henni á farsælan hátt. Því er ekki síst að þakka, að við stjórnvölin voru m.a. góðir og hæfir leiðtogar. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Magnúsar Þórs Hafsteinssonar rithöfundar, þýðanda og fyrrverandi alþingismanns sem nú hefur sent frá sér þýðingu af bókinni Kúbudeilan 1962 eftir rithöfundinn Max Hastings, en þýðingin er gefin út af bókaútgáfunni Uglu.

Magnús hefur áður þýtt bækur eftir Hastings en þær bækur eru Vítislogar, Heimur í stríði 1939 til 1945 og Kóreustríðið 1950 til 1953.

Magnús segir að það sé búið að vera mjög ánægulegt að vinna að þýðingu bókanna og bókin um Kúbudeiluna sé þriðja bókin í þessum bókaflokki en Hastings hefur m.a. einnig skrifað bók um Víetnamstríðið sem Magnús vonast til að geta einnig fært lesendum á Íslandi í framtíðinni.

Í þættinum ræddi Magnús um Kúbudeiluna og aðdraganda hennar og hvernig úr henni var leyst. Í aðdraganda deilunnar hafði gengið á ýmsu. Þar varð bylting og náðu kommúnistar völdum sem varð Bandaríkjunum mikið áfall. Kúba var á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Bandaríkin vildu að sjálfsögðu ekki að Rússar hervæddu Kúbu og kæmu fyrir kjarnorkuvopnum á eyjunni, sem er staðsett stutt frá Bandaríkjunum

“ Kúba er þarna rétt undan ströndum Bandaríkjanna við mynni Mexíkóflóa og við flóann eru öll suðurríki Bandaríkjanna og margar mikilvægustu hafnirnar. Þetta var mikið áfall sem bættist ofan á fyrri áföll sem menn töldu vera vegna framgangs kommúnismans. Við sjáum hvað gerðist eftir seinni heimsstyrjöld þar sem Sovétríkin koma út sem einn af stóru sigurvegurunum og sölsa undir sig stóran part af austur Evrópu og Kína fellur einnig í hendur kommúnista “ segir Magnús.

Bandaríkjamenn reyndu að stöðva Kommúnistana

Hann segir að þegar Kommúnistar náðu völdum á Kúbu hafi Bandaríkjamenn orðið smeykir við að bylting Kommúnista væri að breiðast út og gæti jafnvel náð yfir til suður og mið Ameríku. Þetta hafi farið illa í Bandaríkjamenn sem hafi farið að hugsa leiðir til þess að steypa kommúnistum af stóli á Kúbu. Útlaga her hafi verið sendur til Kúbu en hafði ekki erindi sem erfiði og í raun hafi allt farið í handaskol.

Þegar deilan átti sér stað var Kennedy forseti Bandaríkjanna og Nikita Khrushchev leiðtogi Sovétríkjanna og segir Magnús að líklegt sé að Khrushchev hafi vanmetið hinn unga forseta Bandaríkjanna. Khrushchev fékk þá hugmynd að koma kjarnorkuflaugum fyrir á Kúbu sem nánast var sem fyrr segir í bakgarði Bandaríkjanna. Síðan ætlaði Khrushchev að mæta á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York og greina frá því í ræðu að Sovétmenn hefðu komið fyrir sprengjunum á Kúbu.

„Khrushchev kynnti þetta fyrir miðstjórn Sovétríkjanna og þeir féllust á þetta en svo undarlegt sem það er, þá fréttu Bandaríkjamenn ekkert af þessu “ segir Magnús.

Af þessu verður mikið fát og eftirleikurinn mjög hættulegur en hlusta má á spennandi frásögn Magnúsar í þættinum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila