Bjarni Benediktsson hefur ekki svarað grundvallaspurningum um aðkomu sína að Íslandsbankasölunni

Bjarni Benediktsson hefur ekki svarað mikilvægum grundvallar spurningum um aðkomu hans að Íslandsbankasölunni. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Fréttir vikunnar í dag en þar ræddu Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson við Jóhann Pál Jóhannsson þingmann Samfylkingarinnar.

Eins og kunnugt er hefur Umboðsmaður Alþingis sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi(sem sjá má með því að smella hér). Þar sem hann er krafinn svara um ýmis atriði sem varða söluna, aðdraganda hennar og hæfi og ábyrgðar hans sem ráðherra varðandi söluna en fyrirtækið Hafsilfur sem er í eigu föður Bjarna voru meðal þeirra aðila sem fengu að kaupa hluti í bankanum.

Jóhann Páll segist ekki vilja svara því hvort hann telji að staðið hafi verið að sölunni með ólögmætum hætti en bendir á að kallað hafi verið eftir því að skipuð yrði óháð rannsóknarnefnd á vegum þingsins en nú sé málið bæði á borði Fjármálaeftirlitsins og sé komið í farveg hjá Umboðsmanni Alþingis og mikilvægast sé að fá svör við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fyrir Bjarna um málið.

„við höfum velt því upp hvort hann hafi fylgt öllum meginreglum stjórnsýsluréttar þegar hann tók þessar afdrifaríku ákvarðanir aðeins á örfáum klukkustundum án þess að vita meðal annars hverjum hann var að selja eignarhluti í bankanum“segir Jóhann.

Mörg atriði sem Bjarni hefur ekki gefið útskýringar á

Jóhann vekur athygli á að Bjarni hafi aldrei útskýrt meðal annar á hvaða hátt hann hafi gætt að hæfi sínu í málinu, hvernig hann rækti rannsóknarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum og hvernig hann hafi tryggt jafnræði á milli kaupenda í öllu ferlinu.

„það eru alls konar svona atriði, svo hvernig hann hefur ýjað að því að Bankasýslan sé sjálfstætt stjórnvald þegar það liggur fyrir að hún er hluti af stigveldi stjórnsýslunnar og er undirstofnun ráðuneytis hans og það er ráðherra sjálfur sem fer með stórt hlutverk samkvæmt lögum um sölumeðferð á eignahlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, hann ber stjórnskipulega og stjórnsýsluréttarlega ábyrgð á söluferlinu öllu og tekur endanlega ákvörðun um söluna“segir Jóhann.

Sama leyndarhyggjan í Lindarhvolsmáli

Í þættinum var Jóhann Páll einnig spurður um stöðuna í Lindarhvolsmálinu en svo sérkennilega vill til að Jóhann Páll sem vill leggja fram spurningar um málið hefur þurft að biðja um sérstakt leyfi til þess að spyrja um málið, en greidd verða atkvæði á þinginu um hvort Jóhann megi bera fram spurninguna.

Jóhann bendir á að bæði í Íslandsbankamálinu og Lindarhvolsmálinu snúist málin bæði um sölu ríkiseigna en í Lindarhvolsmálinu er um eignir sem voru hundruð milljarða virði. Eigna sem Jóhann bendir á að ekki hafi verið vilji til þess að hafa gagnsæi um.

Arnþrúður segir að líkt og í Íslandsbankamálinu snúi þetta að ráðherraábyrgð og er Jóhann sammála því.

Hann bendir á að í Lindarhvolsmálinu sé hann að krefjast þess að skýrsla fyrrverandi ríkisendurskoðanda fáist birt en þar standi að því er virðist Birgir Ármannsson einn í vegi fyrir því að hún verði birt þrátt fyrir að það liggi fyrir lögfræðiálit sem kveði skýrt á um að hún skuli birt.

Hann segir skjalið sannarlega ekki vera vinnuskjal enda hafi þáverandi ríkisendurskoðandi ekki litið svo á að skjal hans væri vinnuskjal heldur skýrsla og að auki hefði hún verið afhent Alþingi. Öðru máli myndi gegna hefði skýrslan verið afhent ráðuneyti, það sé ekki og því ljóst að ekki er um vinnuskjal sé að ræða.

„Alþingi fékk þetta skjal og þá á þetta að vera birt bæði þingheimi og almenningi og það liggur fyrir lögfræðiálit því til staðfestingar og forsætisnefnd hefur sagt að það eigi að birta þetta“ segir Jóhann Páll.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila