Bjóða út þjónustu við hælisleitendur

Stjórnarráð Íslands.

Birt hefur verið forauglýsing á vegum Íslenska ríkisins á Evrópska efnahagssvæðinu um samning um aðstoð og þjónustu við hælisleitendur. Í auglýsingunni er óskað eftir aðilum sem hafa áhuga á að taka að sér verkefnið en frestur til þess að skila inn tilboðum rennur út 2. september. Fram kemur að markmið samningsins sé að tryggja öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd félagslegan stuðning, upplýsingagjöf og sjálfstæða og óháða hagsmunagæslu. Þá segir að tilgangurinn sé að jafnræðis verði gætt, umsækjendur fái vandaða málsmeðferð, viðeigandi þjónustu og eigi greiðan aðgang að stuðningi og upplýsingum. Í auglýsingunni er tekið fram að samningurinn feli í sér að hvers konar þjónusta skuli veitt í þessu sambandi, til dæmis varðandi félagslega aðstoð og réttargæslu. Ekki er tekið fram í tilkynningunni hvort um sé að ræða viðbót við þá þjónustu sem þegar sé veitt hér á landi en samkvæmt auglýsingunni er gert ráð fyrir að hámarksframlag vegna samningsins hljóði upp á 830 milljónir íslenskra króna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila