Björn Leví: Fáum forsætisráðherra sem nýlega sagði af sér vegna spillingar

Fyrstu viðbrögð Björns Leví Gunnarssonar þingmanns Pírata við nýkynntri ríkisstjórn eru þau að honum þyki þetta allt mjög súrrealískt og sér í lagi að Bjarni taki við forsætisráðherrastólnum því hann sé rétt nýbúinn að segja af sér öðru ráðherraembætti vegna spillingar í Íslandsbankamálinu. Svandís Svavarsdóttir hafi komið sér í skjól sem innviðaráðherra undan vantrauststillögu Ingu Sæland. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Björns í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Björn segist hneykslaður á þessari ráðherraskipan og segir að hann hefði vonast eftir að ríkisstjórnarflokkarnir tækju markmið sín um að auka traust á stjórnmálunum alvarlega en með þessu útspili sé auðséð að það geri þau ekki. Það hefði verið í raun eðlilegra að Sigurður Ingi Jóhannsson færi í forsætisráðuneytið sér í lagi vegna þess að Bjarni sé sérlega óvinsæll og fáir treysti honum sé tekið mið af skoðanakönnunum sem segja að færri treysti Bjarna en kjósi Sjálfstæðisflokkinn.

Svandís hleypur í skjól undan Ingu Sæland

Hann tekur undir að það sama megi segja um Svandísi Svavarsdóttur sem hlaupi í skjól í innviðaráðuneytinu undan vantrausttillögu Ingu Sæland en það sé þó stigsmunur á brotum Bjarna og Svandísar. Brot Bjarna vörðuðu ráðherraábyrgð en brot Svandísar lutu að stjórnsýslunni og atvinnufrelsi. Það sé líka hægt að horfa til þess að Bjarni hafi viðurkennt sín brot og sagði af sér á meðan Svandís hafi ekki viðurkennt þau og sýndi meiri forherðingu.

Enginn árangur í húsnæðismálum hjá þessari ríkisstjórn

Hann segist ekki búast við miklu af þeirri ríkisstjórn sem nú hafi verið mynduð frekar en af hinni fyrri enda byggð á sama grunni og sömu málefnum. Bendir Björn á sem dæmi að það sé ekkert auðveldara að kaupa sér húsnæði í dag heldur en það hafi verið 2017 þegar þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum heldur í raun mun erfiðara.

Hlusta má á ítaregri umræður í þættinum í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila