Blindskák mikil þolraun og ekki fyrir hvern sem er

Einn af þeim fjölmörgu skákleikjum sem eru til er blindskák sem reynir mjög mikið á hugsun. Minni viðkomandi skákmanns og hún er alls ekki fyrir hvern sem er því á borðinu eru engir taflmenn og menn verða að muna hvern leik og stöðu taflmanna. Þetta segir Helgi Áss Grétarsson stórmeistari og nýkrýndur Íslandsmeistari í skák en hann var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar í þættinum Við skákborðið.

Helgi sem varð Íslandsmeistari í blindskák árið 1997 segir að blindskák sé svo mikið þolraun að sums staðar sé hún hreinlega bönnuð því dæmi séu um að menn hafi hreinlega farið yfir um af því að reyna að tefla með þeim hætti.

Tefldi við 11 manns í einu og setti Íslandsmet

Helgi segir að þegar hann var strákur hafi hann átt mjög auðvelt með að tefla blindskák og árið 2003 hafi hann teflt fjöltefli í blindskák sem sannarlega er hægt að segja að sé ekki heiglum hent og tefldi Helgi við hvorki meira né minna en 11 manns í einu og setti þar með Íslandsmet.

Einn af þeim sem Helgi hefur keppt við í blindskák er Gary Kasparov en sú skák fór fram í gamla sjónvarpshúsinu árið 1995 og var meðal annars sýnd í sjónvarpinu.

Hann segir að í dag sé hann ekki eins góður í blindskák og á árum áður en í blindskák sé mjög mikilvægt að vera einbeittur og að vera búinn að koma sér upp kerfi til þess að spila eftir.

Nánar má heyra um blindskák í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila