Boðið upp á ókeypis heilsufarsmælingu í Breiðholti

heilsufarSÍBS og Hjartaheill ætla að taka þátt í Heilsueflandi Breiðholti með ókeypis heilsufarsmælingum laugardaginn 10. desember kl. 10-16 í Heilsugæslunni í Mjódd. Þar mun Breiðhyltingum gefast kostur á að fá mældan blóðþrýsting, blóðsykur, blóðfitu og súrefnismettun auk þess að taka þátt í lýðheilsukönnun SÍBS Líf og heilsa. Verkefnið er unnið í samstarfi við Heilsugæsluna í Mjódd og hjúkrunarfræðingur verður á staðnum og býður upp á ráðgjöf til þeirra sem hafa áhyggjur af niðurstöðum mælinga.
Heilsufarsmælingarnar eru liður í fjölþættu forvarna- og fræðslustarfi SÍBS og Hjartaheilla og í fyrsta sinn sem félögin hafa tekið þátt í verkefni Landlæknis og sveitarfélaganna um heilsueflandi samfélög.
Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS segir: „Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta orsök dauðsfalla og heilsubrests á vesturlöndum. Lífstílssjúkdómar eiga það sameiginlegt að þá má að verulegu leyti fyrirbyggja með hollu mataræði, hreyfingu og betri lifnaðarháttum. Ég hvet alla sem eru komnir yfir fertugt og ekki þekkja gildin sín til þess að koma og láta mæla sig. Þetta er ekki bara eitthvað sem er gott að vita, það getur beinlínis verið lífsnauðsynlegt.
Það er við hæfi að hefja leikinn í Breiðholtinu enda það hverfi í Reykjavík sem fyrst var að móta sér stefnu og taka þátt í verkefninu. Samningurinn um Heilsueflandi Breiðholt var undirritaður af borgarstjóra í apríl á síðasta ári. Allar borgarstofnanir í hverfinu sem og íþróttafélögin eru aðilar að Heilsueflandi Breiðholti og vinna eftir sínum aðgerðaráætlunum. Ýmsum fjölbreyttum verkefnum hefur verið  hleypt af stokkunum í tengslum við Heilsueflandi Breiðholt – í skólum og öðrum stofnunum hverfisins. Það er frábært að fá nú tækifæri til að ná til allra heimila í Breiðholti og bjóða íbúum Breiðholts  ókeypis heilsufarsmælingar og um leið undirstrika mikilvægi þess að huga vel að heilsunni og grípa í taumana ef nauðsynlegt er. Þess má geta að hverfið okkar býður upp á óteljandi möguleika til útivistar, Elliðaárdal, Heiðmörk og Vatnsendahæðina svo fátt eitt sé nefnt.” segir Þórdís Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri – Heilsueflandi Breiðholts.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila