Breki: Smálánagildrur enn til staðar og ástandið aldrei verra

Ef menn héldu að smálánin sem bera okurvexti væru úr sögunni þá er það síður en svo raunin því þau eru enn til staðar og hefur ástandið í raun aldrei verið verra en einmitt nú. Þetta segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Breki segir að nú sé staðan sú að lánin beri 44% vexti sem sé auðvitað galnir vextir af lánum og þegar vanskilakostnaður bætist ofan á hækki tölurnar mjög hratt. Ef lán lendir svo í lögfræðiinnheimtu þá sé ástandið orðið eins og í villta vestrinu. Dæmi séu um að upphæð hafi fimmfaldast á sjö mánuðum og er alveg ljóst að fólk getur einfaldlega ekki greitt svo háar upphæðir.

Innheimtukostnaður hluti af gróðamódeli

Breki segir að lánum sé beint að þeim sem höllustum fæti standa og því lendi fólk, sem sé í slæmri stöðu fyrir, í enn verri stöðu og gjörsamlega óviðráðanlegri. Hann segir að það virðist vera að innheimtukosntaðurinn sjálfur sé hluti af viðskiptamódeli þeirra fyrirtækja sem stunda slíka starfsemi.

Í Danmörku er bannað að auglýsa smálán

Hann segir Ísland skera sig úr að því leyti að til að mynda í Danmörku sé lagt bann við því að slík fyrirtæki auglýsi starfsemi sína leggi þau hærri vexti á lánin en 20%. Hér leggi fyrirtækin 35% vexti og bæti svo Seðlabankavöxtum ofan á þá tölu en mega samt auglýsa.

Greiðslumatið er í raun ekkert

Þá segir Breki að þegar fólk fari í gegnum greiðslumatið hjá þessum fyrirtækjum eigi það mjög auðvelt með að fá lánin því greiðslumatið fari til dæmis þannig fram að fólk þurfi einfaldlega að svara játandi þeirri spurningu hvort það geti greitt til baka. Það sé því ekki um eiginlegt greiðslumat að ræða í raun.

Hlusta á á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila