Breki: Þroskaskert fólk tekur smálán án vitundar um afleiðingar

Smálánafyrirtækin herja markvisst á þá einstaklinga sem eru veikir fyrir og eru dæmi um að þroskaskertir einstaklingar taki slík lán án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvaða afleiðingar það geti haft á þá. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Breka Karlssonar formanns Neytendasamtakanna í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Breki segir mjög mikilvægt að þess sé gætt að þeir sem taki slík lán geti gert sér grein fyrir því hvað þeir séu að gera með því að taka slík lán og þeim afleiðingum sem það geti haft. Þroskaskertir séu þó ekki eini hópurinn sem geti ekki gert sér grein fyrir afleiðingunum og þar megi nefna fólk með fíknivanda og geðræna erfiðleika. Þess vegna er það lykilatriði að þessi fyrirtæki geri mat á þeim einstaklingum sem þau lána en eins og staðan er nú skeyta þau engu um slíkt.

Í Noregi eru lagðar skyldur á fyrirtækin

Í Noregi sé það þannig að fyrirtækin verði að geta sannað að einstaklingarnir sem taki hjá þeim lán séu borgunarmenn fyrir lánunum. Þá er það þannig í Noregi að hafi einstaklingur tekið lán og í ljós kemur að hann sé ekki borgunarmaður fyrir henni þá einfaldlega fellur skuldin niður.

Ekki lána fólki á strípuðum örorkubótum

Hann segir umrædd fyrirtæki eigi að vita ef þau eru að lána fólki sem sé á strípuðum örorkubótum þá sé viðkomandi alls ekki borgunarmaður fyrir slíku láni og því eigi ekki að veita þeim lán á þeim okurvöxtum sem þessi lán eru. Það sé mikill ábyrgðarhluti þessara fyrirtækja að lána fólki sem ekki geti borgað. Þó einstaklingar eigi að bera ákveðna ábyrgð þá eigi fyrirtækin að gera það einnig og séu fyrirtækin vísvitandi að lána fólki sem þau vita að geti ekki greitt til baka. Réttast væri að taka upp norsku regluna og fella lánin niður.

Hlusta má á ítarlegri umræðu í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila