Brestir í lýðræðinu þegar stjórnmálamenn telja sig hafna yfir lög

Þegar stjórnmálamenn fara fram með þeim hætti að telja sig hafna yfir lög og virða ekki stjórnarskrána og grípa til aðgerða að eigin geðþótta eins og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra gerði í hvalveiðimálinu eru það merki um að það séu komnir brestir í lýðræðið. Þetta segir Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Guðbjörn segir að þetta háttarlag stjórnmálamanna sé einnig að eiga sér stað víða og þar megi til dæmis nefna aðgerðir af hálfu Angelu Merkel sem hafi brotið gegn stjórnarskrá þegar hún ákvað að hleypa inn fjölda hælisleitenda til Þýskalands.

Eins og vírus meðal stjórnmálamanna

Hann segir þetta eiga einnig við um fleiri stjórnmálamenn og það sé engu líkara en að þetta sé eins og einhver vírus sem hafi lagst á stjórnmálastétt veraldarinnar.

Arnþrúður bendir á að þetta sé einmitt það sem sé að raungerast í máli Svandísar sem bregðist við áliti Umboðsmanns Alþingis með hroka og hefur meðal annars látið frá sér fara að hún ætli að fá nýjan óháðan aðila til þess að fara yfir málið. Spurning sé hversu lengi ráðherra sem staðinn er að slíku eigi að sitja segir Arnþrúður. Svandís sé núna að leita leiða til varna fyrir sig persónulega og gerir það á kostnað skattgreiðenda í landinu.

Tvöfalt siðgæði

Guðbjörn segir að þetta sýni að það sé tvöfalt siðgæði sem sé að eiga sér stað. Ef um væri að ræða Bjarna Ben þá eigi hann að segja af sér ef faðir hans kaupir hlut í einhverjum banka. En ef hins vegar sé um Svandísi að ræða þá geti hún bakað ríkinu milljarða fébótaábyrgð án þess að þurfa að taka ábyrgð og segja af sér. Þetta sýni að það séu allt aðrar mælistikur sem gildi þegar um komma sé að ræða en þegar sé um Sjálfstæðismenn að ræða, segir Guðbjörn.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila