Brýnt að koma kjaramálum lífeyrisþega í lag

Það er einfaldlega brot á lögum að kjör lífeyrisþega haldist ekki í við almenna launaþróun og úr því verður að bæta. Þá þarf að afnema skerðingar gagnvart lífeyrisþegum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingarinnar í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Jóhann segir að Samfylkingin hafi kallað eftir því að á því verði skerpt á ákvæði sem eiga að tryggja, að kjör lífeyrisþega haldist í við launaþróun. Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði í raun spyr Jóhann og segir að það megi ekki vera háð duttlungum fjármálaráðherra á hverjum tíma hver hin raunverulega launaþróun sé og ekki sé giskað á það út í loftið.

Þá þurfi sérstaklega að horfa til öryrkja sem hafa náð 67 ára aldri og fá því ekki lengur örorkubætur heldur ellilífeyri. Þetta sé hópur fólks sem hafi lagt til samfélagsins og byggja eigi kerfið upp með virðingu fyrir því fólki og framlagi þess að leiðarljósi.

Eftirlaunaþegar vanvirtir alla tíð

Aðspurður um hvers vegna eftirlauna fólki sé sýnd sú vanvirðing eins og gert sé í dag segir Jóhann að það sé mjög góð spurning en svona hafi þetta verið í gegnum tíðina alveg frá því að almannatryggingakerfinu hafi verið komið á fyrir seinna stríð.

„það var þessi núningur á milli flokka á þeim tíma og að það mætti helst ekki setja mikla peninga í þetta kerfi þannig þegar því var komið á fót var strax frá upphafi mjög skarpar skerðingar sem viðhéldust áratugum saman með nokkrum undanþáguárum hér og þar“

Þannig hafi viðhorfið þróast að þetta væri einhvers konar ölmusa en ekki að þetta væri byggt á félagslegum réttindum.

„það er kjarni málsins, þetta eru félagsleg réttindi og við eigum að geta verið stolt af þessum kerfum og í raun myndi maður vilja hafa það eins og á flestum Norðurlöndunum að hluti kerfisins væri algerlega ótekjutengdur“ segir Jóhann.

Aðspurður um hvort það sé á stefnu Samfylkingarinnar að afnema skerðingar á lífeyri segir Jóhann svo vera.

„þegar greiðslur hafa verið hækkaðar til þess að fylgja verðlagi þá hefur það mikið til verið gert með því að hækka þá flokka sem eru mest skertir.
Þannig hefur þetta viðhaldist eins og hjá öryrkjum, með sérstöku framfærsluuppbótina, sem hefur verið skert svakalega því hún hefur hækkað meira en aðrir flokkar sem skerðast minna“

Hann segir þetta hafa verið mjög öfugsnúna þróun sem hverfa þurfi frá til dæmis með því að afnema sérstöku framfærsluuppbótina en hækka á móti aðra greiðsluflokka þess í stað.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila