Dagbók lögreglu: Ferðamenn í sjálfheldu, grunsamlegar mannaferðir og ölvun og óspektir

Mjög mikið var að gera hjá lögreglu í nótt og voru flest útköllin vegna fólks sem ekki kunni fótum sínum forráð vegna mikillar drykkju.

Þó voru ferðamennirnir sem lögregla þurfti að bjarga af Gróttuvita alveg allsgáðir. Þar höfðu þeir lent í sjálfheldu og ekki áttað sig á að þar væri hætta á að flæddi yfir. Lögreglan fékk einnig tilkynningu um óvelkominn einstakling á gistiheimili í miðborginni. Málið var leyst í sátt beggja aðila málsins.

Tvær tilkynningar bárust um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 105. Önnur átti sér eðlilegar skýringar en í hinu tilfellinu fundust aðilarnir ekki. Einnig var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108 sem lögregla sinnti en ekki sást til aðilanna.

Þá var óskað aðstoðar lögreglu vegna aðila sem óskaðist fjarlægður í hverfi 108. Er lögregla reyndi að ræða við aðilann neitaði hann að gefa upp persónuupplýsingar og sló til lögreglumanns og var því handtekinn. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þá var tilkynnt um nokkrar líkamsárásir en þær reyndust allar vera minniháttar.

Einnig var talsvert um að fólk æki undir áhrifum áfengis og vímuefna en þau mál fara sína hefðbundnu leið í kerfinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila