Dagbók lögreglu: Hótaði að stinga lögreglumenn með sprautunál

Það var umtalsverður erill hjá lögreglu á kvöld og næturvaktinni og fjölmörg mál þar sem lögregla þurfti að grípa inn í.

Meðal annars fundu lögreglumenn stolna bifreið í hverfi 105. Bifreiðin var mannlaus og læst, en með frumkvæði og rannsóknarvinnu almennra lögreglumanna fundust lyklarnir og ætlað þýfi úr bifreiðinni – húslyklar, farsími og aðrir persónulegir munir. Þessu var öllu skilað til eiganda. Stuttu síðar voru þjófarnir, karl og kona, handteknir í hverfi 110. Þau höfðu þá verið tilkynnt víða um borg, m.a. fyrir ofbeldistilburði og hótanir. Þegar lögreglumenn hugðust handtaka konuna hótaði hún að stinga þá með sprautunál, en lögreglumenn náðu að beita hana lögreglutökum og færa í handjárn. Við öryggisleit á konunni fundust síðan bæði sprauta og hnífur. Þau voru vistuð í fangageymslu lögreglu, enda bæði í annarlegu ástandi.

Þurftu að beita úðavopni

Þá var óskað aðstoðar vegna fólks, karls og konu, til vandræða á hóteli í hverfi 101. Fjórir lögreglumenn fóru á staðinn og voru þeim gefin fyrirmæli um að yfirgefa staðinn, sem þau hlýddu ekki. Þá reyndi karlinn að stofna til átaka og mundaði sig við að ráðast á lögreglumennina. Honum var þá ógnað með úðavopni, en tvíefldist aðeins við það. Því var úðavopninu beitt gegn honum og dró þá hratt úr baráttuþreki mannsins. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem honum var veitt fyrsta hjálp við áhrifum úðans. Síðan var hann vistaður í fangageymslu, en hann var verulega ölvaður.

Óvelkominn á hóteli

Lögregla var einnig kölluð út vegna óvelkomins aðila á hóteli í hverfi 101. Sá hafði brotist inn á herbergi hótelgests og stolið þaðan peningaveski. Aðilinn var handtekinn á staðnum, en við öryggisleit á honum fannst vasahnífur. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins, en hann var í annarlegu ástandi.

Á perunni og bremsulaus

Ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum í hverfi 109, en aksturslag bifreiðarinnar var mjög rásandi. Sá var undir áhrifum amfetamíns og róandi lyfja, sem er slæm blanda. Þá var ökumaðurinn sviptur ökuréttindum og hefur ítrekað gerst sekur um að aka sviptur. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku. Þegar lögreglumenn lögðu bifreiðinni í stæði uppgötvuðu þeir að bifreiðin var eiginlega alveg bremslulaus og því voru skráningarmerkin fjarlægð af bifreiðinni og hún þannig tekin úr umferð.

Þá voru nokkrir aðrir einnig stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila