Dagbók lögreglu: Hóteli lokað, innbrot þjófnaðarmál, bókabrennur og sinueldar

Á dagvakt lögreglu í dag kom talsverður fjöldi mála inn á borð hennar og voru málin mjög fjölbreytt.

Í einu tilviki var um að ræða afskipti lögreglu af hótelrekstri í póstnúmeri 105 en þeir sem ráku hótelið reyndust ekki hafa tilskilin leyfi. Því var hótelinu lokað.

Þá fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sex tilkynningar um innbrot og í einu tilvikinu voru nokkrir einstaklingar handteknir grunaðir um að hafa komið að innbrotum í Hafnarfirði.

Einnig fékk lögregla tilkynningu um mann af erlendum uppruna sem var utandyra í Breiðholti að brenna þar bækur. Ekki kemur fram um hvers konar bækur var að ræða. Þá hafði lögregla afskipti af öðrum einstakling í sama hverfi sem hafði samkvæmt upplýsingum til lögreglu verið til leiðinda.

Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í Vesturbæ Kópavogs en ekki kemur fram hvort lögregla hafi komið á svæðið en einnig barst tilkynning um þjófnað úr verslun í sama hverfi. Ekki kemur fram hvort málin séu talin tengjast. Á svipuðum slóðum kviknaði sinueldur og kom lögregla á staðinn ásamt slökkviliði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila