Dagbók lögreglu: Mikið um þjófnað og eignarspjöll

Um 90 mál voru skráð í málabók lögreglu á dagvaktinni í dag sem byrjaði klukkan sjö í morgun og lauk um fimmleytið.

Í dagbók lögreglu er fjallað um nokkur þeirra mála en þar kemur meðal annars fram að 12 þjófnaðarbrot hafi verið tilkynnt til lögreglu í dag sem og sjö mál þar sem tilkynnt var um eignarspjöll. Meðal annars var tilkynnt um rúðubrot, veggjakrot, skemmdarverk á bifreið og fleira.

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglu en fram kemur í bókun lögreglu að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn en að þolandinn hafi verið meira skelkaður en slasaður. Tveir einstaklingar voru kærðir vegna gruns um ölvun við akstur/vímuefnaakstur og einn fyrir að aka bifreið og tala í síma um leið. Þrír ökumenn óku um án ökuréttinda og voru kærðir á staðnum.

Eitt brunaútkall barst en þar fór betur en á horfðist í fyrstu því pottur hafði gleymst á eldavél og myndaði mikinn reyk. Samkvæmt bókun lögreglu hlutust hvorki skemmdir né skaði af.

Gleðilegu fréttir dagsins eru að engin umferðarslys voru tilkynnt lögreglu í dag.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila