Dagur B. Eggertsson kærður til héraðssaksóknara fyrir hegningarlagabrot – Hilmar Páll beittur þrýstingi og þrábeðinn að draga kæruna til baka

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hilmar Páll Jóhannesson einn eigenda Loftkastalans hefur lagt fram kæru til héraðssaksóknara á hendur Degi B. Eggertssyni fráfarandi borgarstjóra fyrir meint brot á hegningarlögum, stjórnsýslulögum og skipulagslögum. Einnig hafa tveir embættismenn verið kærðir vegna málsins, þeir Björn Axelsson skipulagsfulltrúi á Umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkur og Harri Ormarsson lögfræðing á Umhverfis og skipulagssviði.

Hilmar beittur þrýstingi

Frá því kæran var lögð fram í byrjun apríl hefur verið reynt að beita Hilmar Pál þrýstingi og hann meðal annars þrábeðinn um að draga kæruna á hendur Degi B. Eggertssynitil baka. Sú krafa kom meðal annars fram á tveimur fundum sem Hilmar Páll hefur átt með borgarritara, nú síðast þann 25.apríl en Hilmar Páll og hans fólk gekk út af fundinum. Þá hefur lögmaður Baltasars Kormáks kvikmyndaframleiðanda og leikstjóra einnig farið fram á við Hilmar Pál að kæran verði dregin til baka.

„það segir mér að menn vita upp á sig sökina í þessu öllu því annars væri þeir ekki að reyna að fá kæruna dregna til baka, þeir vilja ekki að málið verði rannsakað“

Lóðin stóðst ekki kröfur eftir kaupin

Forsaga málsins er sú að Loftkastalinn festi kaup á 1800 fermetra lóð ásamt byggingarrétti í landi Gufuness en eftir kaupin ákvað borgin að skipta lóðinni í tvennt með þeim loforðum að skiptingin hefði ekki áhrif á lóð Loftkastalans.

Síðar komust forsvarsmenn Loftkastalans að því að hækka ætti baklóðina um 60 sentimetra en þær fyrirætlanir hafi hvergi komið fram við kynningu á eigninni. Lóðin var því ekki í samræmi við þær forsendur sem settar voru fram við kaupin og nýtist því lóðin ekki eins og til var ætlast í upphafi. Eigendur Loftkastalans voru að vonum ósáttir við og hafa nú staðið í deilum við borgina vegna málsins hátt á fjórða ár með tilheyrandi töfum og röskun á starfsemi Loftkastalans.

Þegar forsvarsmenn Loftkastalans fóru að kafa ofan í málið kom í ljós að ýmislegt hafi verið athugavert við feril málsins, ekki hafi til að mynda verið fylgt lögbundnu samráðsferli, þá hafi framkvæmdum við deiliskipulag verið verulega ábótavant, einnig hafi ekki verið gefinn kostur á að koma fram með athugasemdir og þá virðist sem svo að gögnum hafi verið haldið frá aðilum málsins.

Fyrirspurnum um málið aldrei svarað

Þá hefur Hilmar einnig reynt að krefja borgarstjóra svara um málið, meðal annars á íbúafundi sem haldinn var í Grafarvogi og var honum tjáð af fundarstjóra tveimur tímum áður en fundurinn hófst að fyrirspurnum hans sem hann sendi rafrænt yrði svarað áður en almennar fyrirspurnir úr sal yrðu teknar fyrir. Allt kom þó fyrir ekki og var fyrirspurnum Hilmars aldrei svarað á umræddum fundi.

Þann 7 apríl síðastliðinn ákvað Hilmar að leggja fram kæruna í málinu sem nú er til meðferðar héraðssaksóknara. Hilmar segir að vegna málsins hafi hann orðið fyrir gífurlegu tjóni sem hlaupi á tugum milljóna, vegna gjörða borgarstjóra sem hann telur vera lögbrot og því taldi hann rétt að fara fram á rannsókn á málinu öllu.

Í Gufunesi er rekið einræðisríki í boði borgarstjórnar

Hilmar segir að staðan í Gufunesi sé sú að þar ráði Baltasar Kormákur því sem hann vill ráða.

„Það er ekki kvikmyndaþorp í Gufunesi. Þar er einræðisríki í boði borgarstjórnar. Auglýsingar um sölu seinni skemmu og annara húsa í felum á vef borgarinnar eru bara til sýnis og enginn fær að kaupa eignir á svæðinu nema með samþykki Baltasars. Hann er kominn með stjórn á seinni skemmunni á svæðinu sem hægt var að nota sem kvikmyndaver og voru önnur iðnaðarhús seld, en ekki til aðila í kvikmyndageiranum“ segir Hilmar.

Hann segir tilboð í leigu lægri til tilboðshafa sem vinni með vissum aðilum, en ef ekki sé unnið með réttu aðilunum er leiguverð mun hærra og allt gert til að skemma fyrir þeim sem ekki séu í náðinni, það háttarlag sé allt í boði meirihlutans í Reykjavík.

Segir Baltasar endurselja lóðir og nota féð til að fjármagna eigin rekstur


Hilmar segir Baltasar Kormák endurselja þær lóðir sem hann hafi fengið frá borginni og noti féð til þess að fjármagna eigin rekstur.

„Með atferli eignaumsýslu og borgarstjórnar hefur Reykjavíkurborg brotið stjórnsýslulög, sem og samkeppnislög. Það atferli snýst um að afhenda GN stúdio, fyrirtæki Baltasars Kormáks á silfurfati, lóðavilyrði fyrir 1400 hundruð íbúa hverfi án auglýsinga og útboða. Sem hefur gefið honum tækifæri til að kosta uppbyggingu á sínum fyrirtækjum í Gufunesi með endursölu þessara lóða.“ segir Hilmar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila