Davos ráðstefnurnar afhjúpa hvar hið raunverulega vald liggur

Áður var það þannig að stjórnmálamenn boðuðu lobbýistana á sinn fund til þess að heyra hvað þeir hefðu að segja en með tilkomu Davos ráðstefnanna hafa þessi hlutverk snúist við. Nú boða lobbýistarnir og peningamennirnir stjórnmálamennina á sinn fund og það afhjúpar í raun hvar hið raunverlega vald liggur í dag. Þetta segir Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi og lögmaður en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Arnar segir ljóst að það séu því stórfyrirtæki og auðjöfrar sem hafi völdin í heiminum og þarna hafi orðið samruni valds og fjármuna. Við þessu hafi Adam Smith varað við strax á 18.öld. Hann hafi sagt að það gætu ekki komið saman tveir auðjöfrar nema það endaði í samsæri gegn almenningi.

Stjórnmálamenn beðnir að upplýsa um tengsl við Davos

Hann bendir á að sú krafa sé raunverulega uppi á borðinu beggja vegna Atlantshafsins að stjórnmálamenn sem hyggi á frama í stjórnmálum upplýsi um hvort þeir hafi setið fundi í Davos og geri almenningi grein fyrir því hvaða tengsl þeir hafa við þessi öfl.
Katrín Jakobsdóttir hefur sótt fundi í Davos

Arnar segir að í ljósi þess færi betur á því að fjölmiðlar myndu því spyrja forsetaframbjóðendur út í tengsl þeirra við þessi öfl í stað þess að spyrja þá hvað þeir vilji hafa á pizzunni sinni. Bendir Arnar á að Katrín Jakobsdóttir hafi einmitt sótt fundina í Davos og að auki sé hún í embætti velsældarsendiherra WHO. Það væri því ekki úr vegi að menn spyrðu hana út í þessa hluti. Auk þess hafi mikið verið í umræðunni afstaða Katrínar til fóstureyðinga og þau ummæli hennar um að leyfa ætti þær alveg fram að fæðingu. Arnar segir að honum finnist það ekki til marks um mikla virðingu fyrir lífinu.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila