Eftirfylgnisskýrsla OECD: Áhyggjur af stöðu rannsókna á mútubrotum á Íslandi

Eftirfylgnisskýrsla starfshóps OECD um mútubrot í alþjóðlegum viðskiptum (e. Working Group on Bribery) vegna fjórðu úttektar Íslands var formlega samþykkt á fundi hópsins þann 7. mars síðastliðinn.

Í skýrslunni er einkum lagt mat á árangur íslenskra stjórnvalda við að innleiða tilmæli starfshópsins sem beint var til stjórnvalda í kjölfar 4. úttektar hans á framkvæmd og innleiðingu samnings OECD um mútubrot (e. Anti-Bribery Convention) hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að af þeim 28 tilmælum sem beint var til stjórnvalda hafa 6 þeirra verið innleidd að fullu, 19 hafa verið innleidd að hluta til en 3 tilmæli teljast ekki hafa verið innleidd. Í niðurstöðum skýrslunnar er lögð sérstök áhersla á aðgerðir stjórnvalda til að efla getu til rannsókna á mútubrotum auk nauðsynlegra lagabreytinga sem gerðar voru og varða hámarkslengd refsinga, upptöku eigna, refsiábyrgð lögaðila og refsiákvæði hegningarlaga um mútubrot. Í skýrslunni lýsir starfshópurinn þó einnig áhyggjum yfir því að íslensk yfirvöld hafa enn ekki lokið rannsókn á broti er varðar mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna og eru stjórnvöld hvött til að efla enn fremur getuna til að koma upp um og rannsaka slík mál.

Smelltu hér til þess að skoða skýrsluna

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila