Eftirhermuferillinn byrjaði í sveitinni fyrir Norðan

Jörundur Guðmundsson ferðaskipuleggjandi og skemmtikraftur.

Jörundur Guðmundsson skemmtikraftur og eftirherma til áratuga sem var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í dag segir að hann hafi smitast af eftirhermubakteríunni þegar hann var í sveit sem strákur fyrir norðan, nánar tiltekið á Fagranesi í Aðaldal.

Hann segir að þar hafi verið mikil hefð fyrir því að herma eftir fólki og yngri bróðirinn á heimilinu hafi lagt sig sérstaklega fram í þeim efnum og verið geysilega góð eftirherma sem gat hermt eftir bændum og búaliði í dalnum. Jörundur hafi þá 14 ára verið farinn að herma eftir Stefáni Jónssyni fréttamanni.

„þarna var segulband á heimilinu og við ákváðum að búa til svona þátt á segulbandið þar sem ég hermdi eftir Stefáni og gerðum við þetta þannig að Stefán átti að vera að ræða við bændur í sveitinni sem svo yngri bróðirinn lék eftir. Svo án þess að ég vissi tók hann spóluna og fór með hana um sveitir og leyfði fólki að heyra og það hafði mjög gaman að þessu en hins vegar var húsfreyjan á Fagranesi alls ekki hrifin.

Áður en Jörundur vissi af var hann farinn að ferðast um með mönnum eins og Bessa Bjarnasyni og fleirum og skemmta út um land allt og í þá daga var helst verið að herma eftir stjórnmálamönnum og leikurum.

„Það voru allir mjög hrifnir af þessu nema einn maður, það var Gísli Halldórsson sem fannst þetta ekki sniðugt og hafði horn í síðu minni alla tíð út af þessu“

Aðspurður um hvers vegna Gísli hafi ekki verið sáttur við þetta segir Jörundur að hann hafi heyrt að Gísla hafi fundist niðurlægjandi að verið væri að herma eftir honum, Gísli var auðvitað stórleikari og kannski svolítil prímadonna.

„en það fannst öllum öðrum þetta skemmtilegt og menn sem ég hermdi mikið eftir eins og Geir Hallgrímsson og hafði mjög gaman af þessu lánaði mér ræðurnar sínar svo ég myndi ná orðalaginu hans upp á tíu“ segir Jörundur.

Það er óhætt að segja að Jörundur hafi verið afar umsvifamikill þegar kemur að því að skemmta landanum og má þar nefna fjölda kabaretta sem hann hefur tekið þátt í með mönnum eins og Ólafi Gauki, en þeir félagar störfuðu um árabil, þá hefur hann starfað með öllum helstu skemmtikröftum og gamanleikurum landsins og til gamans má geta að Jörundur, Laddi og Gísli Rúnar Jónsson heitinn stóðu saman að skemmtiþætti á Útvarpi Sögu á upphafsárum stöðvarinnar.

Þá hefur Jörundur einnig verið afar duglegur að flytja inn sirkusa og tívolí til Íslands, meðal annars hinn víðfræga danska Sirkus Arena.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila