Eigum að nýta tækifærið og endurskoða EES samstarfið og spyrja hver eigi að ráða á Íslandi

Það sem menn þurfa að fara að gera hér á landi er að ákveða hver eigi að stjórna hér, hvort menn vilji hafa hér lýðræði og þjóðin búi við eigið fullveldi eða að hér fari erlendir aðilar með völd. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Ólafssonar prófessors í veðurfræði við Háskóla Íslands og formanns Heimssýnar í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Í þættinum var rætt um frumvarp utanríkisráðherra sem miðar að lagabreytingum um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 35 sem gerð er krafa um að innleidd verði á Íslandi. Frumvarpið er afar umdeilt og hefur Stefán Már Stefánsson prófessor í Evrópurétti meðal annars varað við því meðal annars á þeim forsendum að ekki sé hægt að lofa forgangi evrópureglna til framtíðar og að slíkt geti teflt réttaröryggi í tvísýnu.

Verið að seilast eftir enn meiri yfirráðum yfir íslenskri löggjöf

Haraldur segir að með frumvarpinu sé verið að seilast eftir enn frekari yfirráðum yfir íslenskri löggjöf og að öll umræða um samstarf Íslands við Evrópusambandið í gegnum EES samninginn gangi út á að það þurfi nauðsynlega að færa meira vald til sambandsins eða undirstrika þurfi það vald sem þegar hafi verið fært þangað, það eigi einmitt við í þessu máli. Eftirlitsaðilanum ESA þyki ekki nógu skýrt kveðið á um það hver eigi að ráða og ESA telur að það sé ekki löggjafi Íslands sem eigi að ráða heldur Evrópusambandið segir Haraldur.

Haraldur segir að þetta sé orðið að ákveðnu vandamáli af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst sé vandamálið að EES samstarfið og samningurinn sé ólýðræðislegt. Það sé ekki eðlilegt að ein af mörgum viðskiptablokkum sem Ísland eigi í viðskiptum við hafi þessi ítök í löggjöf landsins eins og Frakkland, Þýskaland og þeirra fylgiríki hafi, auk þess að vera fullkominn óþarfi.

„það er í rauninni ekkert sem að kallar á þetta fyrirkomulag við stjórn landsins og það er að mínu mati skynsamlegt að nota það tækifæri sem núna gefst þegar þessi umræða fer af stað á Alþingi og í samfélaginu að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar og spyrja þá spurningarinnar hver eigi að ráða á Íslandi?“segir Haraldur.

Arnþrúður bendir á að í lögunum um Evrópska efnahagssvæðið og lögum sem innleidd hafi verið 1993 komi fram að það skuli ríkja ákveðinn forgangur gagnvart reglum frá ESB vegna EES samningsins, hin svokallaða forgangsregla.

Endar í tómri vitleysu að þjóna tveimur herrum

Hann segir málin verða oft flókin og erfið þegar menn ætli að þjóna mörgum herrum og endi oft með einhverri vitleysu. Hann bendir á að á sínum tíma þegar samningurinn hafi verið innleiddur hafi margir efast mjög um að hann stæðist stjórnarskrána og því hafi hann verið samþykktur með naumindum og segist Haraldur að hann sé efins um að ef frumvarpið um forgang EES reglnanna eins afdráttarlaust og það er núna hefði fylgt með á þeim tíma hefði farið í gegn og hann stæðist stjórnarskrá.

Arnþrúður sagði að á þeim tíma sem samningurinn var innleiddur hafi undanþágur verið veittar á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar en á móti hafi komið ákveðin skilyrði sem Ísland hefði skilyrðislaust að fara eftir væri að fullinnleiða samkeppnisreglur samningsins vegna þess að þetta væri fyrst og fremst markaðssamningur.

„ég held að það sé svo sem enginn sérstakur vafi á að þegar samningurinn var gerður þá var hugmyndin að það yrði þarna ákveðinn forgangur og þannig er það í Noregi til dæmis og þá spyrja menn hvernig norðmenn hafi farið að þessu og af hverju var þetta gert í Noregi en ekki á Íslandi? það er vegna þess að norðmenn hafa heimild til þess að breyta stjórnarskrá með auknum meirihluta í stórþinginu og það var aukinn meirihluti sem samþykkti EES samninginn, þannig er litið á að stjórnarskrárgjafinn hafi framselt þetta vald“segir Haraldur.

Haraldur bendir á að í raun sé málið afar einfalt og kristallist í viðtali Morgunblaðsins við Stefán Má Stefánsson í Evrópurétti, en þar segir:

„við getum ekki lofað forgangi til framtíðar því þá væri verið að framselja lagasetningarvald og það bryti gegn stjórnarskrá“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila