Eigum einfaldlega að segja nei við kolefnisgjaldi á alþjóðaflug frá Íslandi

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins.

Ef Ísland myndi samþykkja að greiða kolefnigjald af alþjóðaflugi frá Íslandi eins og Evrópusambandið fer fram á myndi það hafa mjög alvarleg og víðtæk áhrif á samfélagið og því á Ísland að hafna því með öllu að taka slíkt gjald upp og segja nei við Evrópusambandið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Bergþór segir sem fyrr segir að áhrifin af upptöku kolefnisgjalds yrðu alvarleg.

„það mun draga verulega úr flugi til og frá landinu og það mun gera það dýrara, þetta hefði mjög slæm áhrif á ferðaþjónustuna, þetta myndi ganga af ferskfisk útflutningi með flugi dauðum, þetta myndi hafa áhrif á hvar fyrirtæki kjósi að hafa sínar starfsstöðvar þegar flugferðum og tengiflugum fækkar og með þessu erum við að fara áratugi aftur í tímann“segir Bergþór.

Á mánudaginn var málið tekið fyrir á þingi í sérstakri umræðu og segir Bergþór að þá hafi utanríkisráðherra sagt að hún myndi ekki innleiða gjaldið án tilhlýtandi undanþága.

„en það sem ég og félagar mínir í Miðflokknum höfum áhyggjur af er að undanþágurnar verði ekki nægjanlegar því það að fresta innleiðingu um nokkur ár skiptir ekki nokkru máli því áhrifin verða þau sömu, þannig við eigum að segja nei við ætlum ekki að taka þetta upp því þetta kerfi á ekki við á Íslandi, þetta kerfi nefnilega gengur út á það að troða fólki í járnbrautarlestir í stað flugs og þetta væri svona svipað og að banna fólki hér að fljúga og segja því að taka bara Norrænu í staðinn“segir Bergþór.

Hann segir í stað þess að taka upp slík gjöld ættu menn frekar að gera allt til þess að verja flugið og byggja það enn frekar upp en gert hefur verið í stað þess að gerast taglhnýtingar ESB í máli eins og þessu og á ekki við á Íslandi.

„kaldhæðnin í þessu er sú að það er nú búið að sýna það með góðum útreikningum sem ekki eru gagnrýndir af því þeir eru einfaldlega réttir að það verði aukinn útblástur í ákveðnum sviðsmyndum við þessa aðgerð ef menn ætla að framkvæma hana, þ,e að drepa Ísland sem miðstöð tengiflugs um Atlantshafið“segir Bergþór.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila