Ekkert um varnarstefnu Íslands vegna Úkraínustríðsins í þjóðaröryggisstefnu Íslands

Ekki er minnst á stríðið í Úkraínu og stöðu Íslands gagnvart því í nýuppfærðri þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins og sérfræðings í Evrópurétti í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Eyjólfur segir að í breytingartillögum Katrínar Jakobsdóttur hafi hvergi neitt verið að finna hvað varðar stöðu landsins gagnvart stríðinu en loftslagsmálin hafi auðvitað fengið sinn sess.

„þarna er verið leggja áherslu á umhverfis og öryggishagsmuni Íslands, óróavirkni og mikilvægi innviða, loftslagsbreytinga, net og upplýsingaöryggis og annara ógna sem þarfnast athygli þannig þetta var svona uppfærsla á þeirri stefnu sem lýtur að almannavörnum en það var bara eins setning sem laut að stríðinu í Úkraínu en það var bara í greinargerðinni en það vantar algjörlega allt um varnarstefnu þjóðarinnar hvað þetta mál varðar. Öll ríki Evrópu eru að endurskoða sín öryggismál útfrá innrás Rússa í Úkraínu og við eigum að gera það líka“segir Eyjólfur.

Eyjólfur bendir á að Ísland byggi sín þjóðaröryggismál fyrst og fremst á aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin frá árinu 1951.

Hann segist harma að hvergi sé tekið tillit til Úkraínustríðsins í þjóðaröryggisstefnunni og vísar í að þjóðaröryggisráð hafi gefið út skýrslu í fyrra þar sem fram kemur að mikilvægi Íslands í öryggismálum NATO hafi stórlega aukist, þó mikilvægið sé kannski ekki eins mikið og í kalda stríðinu, ekki síst þegar kemur að öryggi á Atlantshafi. Hér séu meðal annars kafbátaleitarvélar.

Hann segir að við afgreiðslu málsins á þingi í gær hafi hann skorað á forsætisráðherra að leggja fram breytingartillögu á þjóðaröryggisstefnunni á varnarstefnu Íslands á næsta þingi með tilliti til ástandsins í Evrópu og stríðsins í Úkraínu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila