Eldglæringar þegar matvælaráðherra birtir ákvörðun í hvalveiðimálinu

Það er ljóst að það munu verða einhverjar eldglæringar á Alþingi þegar Bjarkey Olsen matvælaráðherra birtir niðurstöður í hvalveiðimálinu. Sama hvaða ákvörðun hún tekur hvort heldur sem með eða á móti hvalveiðum. Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Jóhann Páll bendir á að muni ráðherra fallast á og gefa Hval hf leyfi til veiða þá muni grasrót VG verða mjög ósátt en muni hún hins vegar hafna því að gefa út leyfið þá muni samstarfsflokkarnir í Ríkisstjórn ekki verða sáttir við þá ákvörðun.

Ber að gefa út veiðileyfi fyrir Hval hf og tryggja góða stjórnsýslu

Hann segir að sama hvor ákvörðunin verði tekin þá verði sannarlega skrautlegt að fylgjast með hvað gerist í framhaldinu. Hann segir afstöðu Samfylkingarinnar vera skýra, flokkurinn sé mótfallinn hvalveiðum en óháð því séu Samfylkingarmenn hlynntir góðri stjórnsýslu og að fara verði að þeim lögum sem gilda í landinu og því beri ráðherra að gefa út veiðileyfi til handa Hval hf. Það sé algerlega skýrt í áliti Umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur á sínum tíma að hún hafi misfarið með vald í málinu og brotið gegn réttmætum væntingum þeirra sem stunda hvalveiðar, atvinnufrelsi fólks og gegn launafólki.

Alþingi tekur ákvarðaranir um hvalveiðar en ekki einstaka ráðherra

Sé það mat manna að það eigi ekki að stunda hér hvalveiðar segir Jóhann þá sé eðlilegur farvegur að leggja slíkt frumvarp fram á Alþingi og þingmenn hafi síðasta orðið í því máli. Það sé mjög alvarlegt þegar einstaka ráðherra taki sér slíkt vald sem síðan baki ríkinu bótaábyrgð og valdi gríðarlegu fjártjóni sem skattgreiðendur þurfi að greiða.

Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila