Vinna að því að fylla skarð milli varnargarða svo hraun renni ekki inn í Grindavík

Eldgosið séð úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar með Grindavík í forgrunni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Eldgos hófst laugardagskvöldið 16.mars kl.20:23 á Reykjanesi nærri Stóra Skógfelli. Gosið virðist nokkuð kröftugt eins og sjá má á vefmyndavélum.

Fyrir þá lesendur sem eru með myndir af gosinu og vilja senda okkur á Útvarpi Sögu til þess að birta hér þá getur fólk sent okkur myndir á myndir@utvarpsaga.is.

Uppfært kl.04:17 Tekist hefur að fergja Njarðvíkurlögnina en hraun mun brátt renna þar sem lögnin liggur. Við ætlum hins vegar að gera hlé á gosvaktinni en munum samt sem áður standa vaktina og birta hér fréttir ef einhver ný tíðindi verða. Þangað til leyfum við ykkur að njóta hér í flettimyndaseríu nýrra mynda af gosinu sem teknar voru úr þyrlu Landhelgisgæslunnar fyrir stundu.

Uppfært kl.03:21 Hér að neðan má sjá kort þar sem við sýnum hvaða leið hraunið rennur í átt að sjó. Rauði punkturinn neðarlega á kortinu sýnir hvar hraunið er komið að varnargarði sem er merktur inn sem appelsínugul lína norðaustan við Grindavík og rauða örin sínir leiðigarðinn sem leiðir hraunið í áttina að sjónum. Græna örin bendir á skarð á milli varnargarðana sem nú er unnið að því að loka svo hraunið renni ekki þar inn í bæinn.

Uppfært kl.02:40 Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttavef Útvarps Sögu að svo virðist sem að nyrsti endi sprungunnar sé farinn að þrengjast og hraunflæði þaðan fari minnkandi. Þá segir Einar að hraunflæðið sem liggi frá Sundhnjúksgígum niður að varnargörðum norðan Grindavíkur sé á leið í suðaustur og í átt að sjó. Það hraun renni hins vegar mjög hægt í áttina að sjónum en stöðugt og fylgst sé vel með þeirri þróun, enn sé of snemmt að segja til um hvort hraunið muni ná alla leið að sjó. Hér að neðan má heyra viðtalið við Einar.

Uppfært kl.02:00 Unnið er að því að verja Njarðvíkurlögnina með því að fergja hana. Stórvirkar vinnuvélar eru notaðar við verksins. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að reyna að verja bæinn Hraun með því að reisa þar varnargarða.

Uppfært kl.01:36 Skýring er komin á rafmagnsleysinu í Grindavík. Sjá tilkynningu hér að neðan:

Uppfært kl.01:20 Hér að neðan má sjá myndband tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flaug yfir gosstöðvarnar fyrir stundu.

Uppfært kl.01:15

Samantekt um eldgosið – Það sem við vitum núna

Eldgosið sem nú stendur yfir rétt austan við Stóra – Skógfell hófst kl.20:23 laugardagskvöldið 16.mars aðeins um mínútu eftir að Veðurstofan hafði sent frá sér viðvörun um að kvikuhlaup væri mögulega að hefjast. Rétt um fjórum mínútum eftir að gos hófst birti Útvarp Saga fyrstu fréttir af gosinu fyrst fjölmiðla. Gosið er það stærsta sem hefur orðið hingað til í þeirri goshrinu sem hófst í Grindavík í desember.

Fljótt varð ljóst að gosinu fylgdi mikið hraunflæði og rann hraunið bæði í suðaustur í átt að Þórkötlustaðahverfi og í vestur í átt að Grindavíkurvegi en hraunið flæddi að lokum yfir Grindavíkurveg rétt um tuttugu mínútur fyrir eitt í nótt. Hraunið náði einnig fljótt að varnargörðum austan við Grindavík og eru taldar líkur á að það geti náð fram í sjó og þá eðli málsins samkvæmt rynni hraunið þá fyrst yfir Suðurstrandaveg. Ef hraunið nær fram í sjó geta myndast minniháttar sprengingar en einnig myndast hættuleg gös þegar hraunflæðið mætir sjó. Þegar þetta er skrifað er orðið rafmagnslaust í Grindavík. Þá er hætta á að ljósleiðaratengingar á svæðinu geti rofnað.

Sunnudagur 17.mars. Uppfært kl.00:43 Hraunið er nú komið yfir Grindavíkurveg eins og viðbragðsaðilar bjuggust við að myndi gerast. Rennur nú hraunið aðeins steinsnar frá virkjuninni í Svartsengi en gert er ráð fyrir að varnargarðar þar haldi og geti varið þá innviði sem þar eru. Sjá mynd hér að neðan.

Uppfært kl. 23:42 Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og þróun hraunflæðis frá gossprungunni. Hraun rennur áfram hratt í suður og suðaustur. Hraði hrauntungunnar eins og hann var metinn úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar er um 1 km á klst. Haldist kraftur gossins óbreyttur er sú sviðsmynd möguleg að hraun nái til sjávar rétt austan Þórkötluhverfisins í Grindavík. Þetta þýðir að gosið færi yfir Suðurstrandaveg.

Hættumatskort má sjá hér að neðan

Uppfært kl.22:27 Hér að neðan má sjákort af áætlaðri staðsetningu sprungunnar og er sprungan sett inn sem rauð brotalína. Varnargarðarnir eru teiknaðir upp sem appelsínugular línur. Talið er að hraunflæðið gæti náð að varnargörðunum norðan og austan Grindavíkur áður en langt um líður. Smella má hér til þess að sjá bein myndstreymi frá eldgosinu frá nokkrum sjónarhornum á vef Mílu.

Uppfært kl.22:11 Hér að neðan má sjá flettimyndaseríu af gosinu sem teknar voru úr flugi þyrlu Landhelgisgæslunnar rétt í þessu.

Hér má sjá nýja mynd sem tekin er frá Reykjavík. Eins og sjá má er mikill bjarmi frá gosinu

Hér má sjá gossprunguna sem er að sögn sjónarvotta talsvert löng og rennur hraunið á talsverðum hraða að Grindavíkurvegi.

Uppfært kl.20:24 Almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna eldgossins

Hér kemur áríðandi tilkynning frá Almannavörnum:

Neyðarstig Almannavarna vegna eldgos milli Hagafells og Stóra-Skógfells.

Í kvöld, eftir klukkan 20: 23 hófst eldgos milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Ekki er enn vitað með umfang elgsossins en þyrla Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið. Upptökin eru nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og eldgosið sem varð 8. febrúar. Aðdragandi gossins var stuttur.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi Almannavarna vegna eldgossins.

Uppfært kl.20:20 Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að samkvæmt fyrsta mati virðist sem að sama magn af kviku sé að koma upp og mældist í eldgosinu 8. febrúar. Eftirlitsflug á vegum Landhelgisgæslunnar er að fara í loftið.

Helstu punktar eru eftirfarandi:

  • Eldgos er hafið á milli Hagafells og Stóra-Skógfells. 
  • Upptökin eru nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og eldgosið sem varð 8. febrúar.
  • Aðdragandi gossins var stuttur en gosið hófst kl. 20.23.

Uppfært kl.21:10 Verið er að rýma Grindavík og undirbúa viðbragðsaðilar sig undir nóttina.

Uppfært kl.21:06 Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í samtali við fréttavef Útvarps Sögu að gosið sé nokkuð kröftugt en líklega ívið minna en gosið 18 desember. Hann segir að gosið sé einnig á svipuðum slóðum og það gos rétt við Stóra – Skógfell. Þorvaldur býst við að atburðarrásin verði sviðuð og í síðustu gosum og segir að ef að líkum lætur muni draga úr gosinu nokkuð fljótt og goslok verði innan nokkurra daga. Hlusta má á viðtalið við Þorvald hér að neðan.

Uppfært kl.20:47 Veðurstofan segir að gosið sé á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, fremur nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og gosið 8. febrúar. Undanfari var skammvinn skjálftavirkni ásamt landbreytingum. Hér á eftir munum við birta viðtal við Þorvald Þórðarson eldfjallafræðing þar sem hann ræðir um gosið sem kom upp fyrir rúmum hálftíma.

Hér má sjá myndir af gosinu teknar frá Reykjavík

Skrifað kl.20:27 Eldgos hófst fyrir nokkrum mínútum á Reykjanesi nærri Sundhnjúksgígum. Nánari staðsetning liggur ekki fyrir en gosið virðist nokkuð kröftug að sjá samkvæmt vefmyndavélum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila