Eldgos í Bláfjöllum og Brennisteinsfjöllum greinilega í undirbúningi

Þær gosstöðvar sem eru á Reykjanesskaga og hafa ekki gosið eru að vakna og undirbúa sig undir gos og þar með eru talin Bláfjöll og Brennisteinsfjöll. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur og prófessor en Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við hann í Símatímanum í dag.

Þorvaldur segir að þetta þýði þó ekki að það sé að byrja gos í Bláfjöllum næstu daga en huga þurfi að því að þetta sé það sem von er á að gerist þar sem Reykjanesskaginn sé vaknaður. Hann segir rétt að nú fari menn að huga að því að undirbúa að gos geti hafist á þessum slóðum og útfæri hvernig sé best að takast á við slíka atburði þegar kemur að þeim svo sem minnst áhrif verði af þeim á hið daglega líf.

Hraun innan borgarinnar frá Bláfjöllum

Hann bendir á að áður hafi gosið í Bláfjöllum og það sé greinilega gos í undirbúningi þar þó ekki sé hægt að segja til um hvenær það gjósi né hversu lengi gos muni standa þar yfir. Það eigi einnig við um Brennisteinsfjöll. Þorvaldur segir að hafa beri í huga að það hraun sem nú sé innan borgarmarkanna hafi komið frá Bláfjöllum þegar þar gaus síðast.

Huga betur að skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu

Þá segir Þorvaldur að menn ættu að huga betur að því þegar kemur að skipulagsmálum að taka með í reikninginn hvar áhrifa eldgosa geti gætt þegar kemur að eldgosum í nánd við höfuðborgarsvæðið. Hraun sem runnið hafa úr Bláfjöllum hafi til að mynda náð að Elliðavatni og þaðan niður Elliðaárdalinn og að Elliðaárósum við sjóinn.

Hlusta má á viðtalið við Þorvald í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila