Eldur í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut

Talsverður eldur logar nú í iðnaðarhúsnæði við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. Mikinn reyk leggur frá húsinu.

Sjónarvottar segir marga sjúkrabíla á svæðinu og telja að slökkvilið séu bæði frá Hafnarfirði og Suðurnesjum. Talið er að fólk búi í húsnæðinu sem um ræðir en ekki hafa fengist nánari upplýsingar um brunann eða hvort einhver hafi verið inni í húsinu þegar eldurinn kom upp.

Uppfært: Reykjarmökk leggur víða yfir Hafnarfjörð og hefur fólk verið hvatt til þess að loka gluggum. Mikill fjöldi viðbragðsaðila er á svæðinu. Húsnæðið hefur verið bæði leigt út sem íbúðarhúsnæði og þá hefur hluti hússins verið notað sem geymslur. Ekki er um samþykkt íbúðarnæði að ræða. Enn logar í húsinu. Slökkvistarf hefur gengið brösulega að sögn varðstjóra enda aðstæður afar erfiðar.

Uppfært: Íbúi nálægt svæðinu segir að svo virðist sem reykurinn myndi þunna bláa þoku sem leggur yfir svæðið og mikil lykt fylgi henni.

Uppfært: Fólk sem var sofandi inni í húsinu var vakið af vegfaranda og komst fólkið út úr húsinu. Ekki er ljóst hvort fleiri hafi verið inni í húsinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila