Er bara á hliðarlínunni hjá World Economic Forum

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi segir að hún sé ekki tengd World Economic Forum nema á þann hátt að hún hafi tekið þátt í hliðarfundum samtakanna fyrir hönd B-Team til þess að kalla eftir meiri ábyrgð WEF í viðskiptum enda sitji þar ákveðin elíta sem eigi að geta tekið á sig ábyrgð í þeim efnum. Þetta kom fram í máli Höllu í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Hún segir að henni finnist World Economic Forum vera barn síns tíma og þar sé ekki allt til fyrirmyndar og það sé einmitt þess vegna sem hún hafi fyrir hönd B-Team setið hliðarfundi í Davos og kallað eftir því að WEF taki á sig meiri samfélagslega ábyrgð.

B-Team stefnir á að laga ójöfnuð

Segir Halla að B-Team hafi til dæmis gert sér far um að benda á að mikill ójöfnuður sé nú um stundir í heiminum og það sé einmitt hlutverk B-Team að benda á og þrýsta á um að úr þeim málum verði bætt.

Hlutverk B-Team að upplýsa um skattamál stórfyrirtækja sem starfa landamæralaust
Þá sé eitt af hlutverkum B-Team að fá alþjóðleg stórfyrirtæki til að útskýra hvar og hvernig þau greiði skatta til þeirra samfélaga sem þau séu starfandi í því það séu fjölmörg dæmi um að slík fyrirtæki borgi einmitt ekki skatta í þeim ríkjum sem þau eru með starfsemi.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um B-Team og World Economic Forum í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila