Erlendir aðilar greiði ekki tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa

Fjármálaráðuneytið hefur sett í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt.

Í frumvarpinu er lagt til að skattskylda erlendra aðila vegna hagnaðar af sölu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta hér á landi verði felld brott. Í dag er farið með tekjur þessar sem vaxtatekjur og eru þær skattskyldar í 12% skatthlutfalli þó þannig að erlendir menn njóta 300.000 kr. frítekjumarks. Flestir tvísköttunarsamningar Íslands kveða á um að eingöngu búseturíki eiganda hafi skattlagningarétt á vaxtatekjum og þar af leiðandi eru skatttekjur í dag af þessum viðskiptum takmarkaðar. Með því að afnema skattskylduna er verið að liðka fyrir erlendri fjárfestingu í íslenskum sjóðum sem hefur verið takmörkuð. Í því felst fyrst og fremst einföldun regluverks í kringum fjárfestinguna en til þess að beita tvísköttunarsamningi þarf að sækja um það til Skattsins og afla m.a. skattskylduvottorðs. Öll umsýsla staðgreiðsluskyldra aðila verður ennfremur einfaldari. Sé horft til nágrannaríkja þá eru vaxtatekjur almennt ekki skattskyldar, nema í undantekningartilfellum. Vaxtatekjur erlendra aðila voru lengi vel ekki skattskyldar á Íslandi en skattskyldan var tekin upp í kjölfar fjármálakreppunnar 2008.

Frumvarpsdrögin mæla fyrir eftirfarandi breytingum á lögum um tekjuskatt:

1) Afnema skattskyldu erlendra aðila á söluhagnað bréfa í íslenskum hlutafélögum.

2) Afnema skattskyldu erlendra aðila á hagnað af sölu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum og sérhæfðum sjóðum fyrir almenna fjárfesta.

3) Skýra ákvæði sem snýr að kaupréttum sprotafyrirtækja.

4) Afnema tímamörk á nýtingu rekstrartapa fyrri ára (í dag 10 ár).

Smelltu hér til þess að skoða nánar í samráðsgátt.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila