Undanfarið hafa bændur í Vatnsdal fengið fyrirspurnir frá fasteignasölum um hvort þeir séu tilbúnir að selja jarðir sínar til erlendra aðila. Tilgangur kaupanna er sagður vera að hefja skógrækt á jörðunum með það að markmiði að kolefnisjafna. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Spurningar hafa vaknað um hvort þessi skyndilegi áhugi á Vatnsdal endurspegli svipuð mynstur, þar sem erlendir aðilar hafi verið kaupa upp íslenskar jarðir og öðlist þar með eignarhald og nýtingarvald hlunninda og auðlinda á umræddum jörðum. Fjölmargar jarðir í Vatnsdal hafa til að mynda nýtingarrétt á Vatnsdalsá.
Varað við jarðakaupum erlendra auðmanna
Slík kaup hafa áður vakið talsverða umræðu, þar sem bent hefur verið á hættuna á því að land og auðlindir fari úr íslenskum höndum og geti valdið neikvæðum áhrifum á íslenska samfélagið. Bent hefur verið á að uppkaup erlendra auðmanna á jörðum hér á landi geti reynst afar varhugaverð og hafa þessi mál verið ítrekað til umræðu í samfélaginu, meðal annars í þáttum á Útvarpi Sögu.
Í þætti á Útvarpi Sögu frá árinu 2018 þar sem Pétur Gunnlaugsson ræddi við Ögmund Jónasson fyrrverandi ráðherra og sjá má frétt um með því að smella hér, sagði Ögmundur að full ástæða væri til að staldra við og íhuga vel tilgang þessara jarðakaupa.