Fækkar á biðlistum eftir skurðaðgerðum – Staðan þó enn ekki orðin ásættanleg

Frá árinu 2023 hefur skurðaðgerðum fjölgað umtalsvert og biðlistar styst. Jákvæð þróun hefur verið á bið eftir skurðaðgerð og hlutfall þeirra sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir skurðaðgerð hefur lækkað í flestum aðgerðaflokkum. Þetta kemur fram í nýrri samantekt frá embætti landlæknis.

Í samantektinni kemur fram að staðan sé þó enn sú að of margir bíða umfram viðmið embættisins um ásættanlegan biðtíma í öllum nema þremur aðgerðaflokkum. Viðmið embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma kveður á um að 80% sjúklinga komist í aðgerð innan 90 daga. Þetta viðmið á ekki við þegar um er að ræða skurðaðgerðir sem metnar eru í brýnum forgangi t.d. vegna lífsógnandi sjúkdóma.

Opnað hefur verið sérstakt mælaborð þar sem sjá má hvernig þróunin hefur verið á biðtíma eftir aðgerðum en sjá má mælaborðið með því að smella hér.

Sumar beiðnir um aðgerðir óvirkar

Í sumum tilvikum uppfyllir fólk ekki heilsufarsleg skilyrði um að gangast undir aðgerð eða óskar sjálft eftir að bíða lengur þegar því er boðin aðgerð. Í slíkum tilvikum eiga aðgerðaraðilar að skrá beiðnir sem óvirkar og teljast viðkomandi einstaklingar þá ekki vera á biðlista. Þegar fólk óskar aftur eftir að komast í aðgerð eru beiðnir virkjaðar á ný og þá á tími sem beiðnir voru óvirkar að dragast frá biðtíma.

Á Landspítala er notast við skráningarkerfi sem takmarkar möguleika á að draga þennan óvirka tíma frá í uppgjöri á biðtíma. Biðtími reiknast þá frá þeim degi þegar beiðni um aðgerð var gerð upphaflega og tekur ekki tillit til þess að einstaklingar hafi ekki verið í virkri bið allan tímann. Af þessum sökum er biðtími ekki birtur í mælaborðinu fyrir liðskiptaaðgerðir á hné eða mjöðm á Landspítala, þar sem hann gefur ekki rétta mynd af raunverulegum biðtíma. Þótt þetta vandamál varðandi mat á biðtíma sé ekki nýtilkomið virðast áhrifin af því hafa orðið meiri nú, þegar margir af þeim sem vilja komast í aðgerð við allra fyrsta tækifæri hafa þegið aðgerð utan sjúkrahúss í gegnum samninga Sjúkratrygginga.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila