Fagráð Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar skipað

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað fagráð Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar til næstu fjögurra ára. Formaður fagráðsins er Emil Lárus Sigurðsson, forstöðumaður þróunarmiðstöðvarinnar.
Þróunarmiðstöðin sem sett var á fót í sumar starfar á landsvísu og hefur hlutverki að gegna við eflingu og þróun heilsugæsluþjónustu um allt land.
Í fagráðinu eiga sæti fulltrúar allra heilbrigðisstofnana á landinu sem reka heilsugæslustöð, fulltrúi sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva og frá heilbrigðisvísindasviðum Háskólans Íslands og Háskólans á Akureyri.
Heilbrigðisráðherra kynnti í maí síðastliðnum ákvörðun um að veita auknum fjármunum til að efla og þróa heilsugæsluþjónustu um allt land en liður í því var að setja á fót Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar með hlutverk á landsvísu. Miðstöðinni er ætlað að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu, hvort sem hún er veitt af hinu opinbera eða einkarekin.
Auk þess að stuðla að nýjungum og þróun þjónustuúrræða í samræmi við helstu áskoranir á sviði lýðheilsu mun Þróunarmiðstöðin annast innleiðingu gæðavísa, leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best. Samræming og samhæfing þjónustu á landsvísu er eitt af meginmarkmiðunum með stofnun miðstöðvarinnar, þannig að betur megi tryggja jafnræði landsmanna og aðgang þeirra að sambærilegri heilsugæsluþjónustu, hvar sem fólk býr.
Fulltrúar í fagráði Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar sem ráðherra skipar í samræmi við reglugerð um heilsugæslustöðvar eru eftirtaldir:
  •  Emil Lárus Sigurðsson, forstöðumaður Þróunarmiðstöðvarinnar, formaður
  •  Óskar Reykdalsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  •  Örn Ragnarsson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Norðurlands
  •  Anna Guðríður Gunnarsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  •  Íris Dröfn Björnsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
  •  Hulda Gestsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Vesturlands
  •  Pétur Heimisson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Austurlands
  •  Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
  •  Sigríður Sía Jónsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri
  •  Ragnar Pétur Ólafsson, tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
  •  Oddur Steinarsson, tilnefndur af heilsugæslustöðvunum Salahverfi, Urðarhvarfi, Höfða og Lágmúla

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila