Félags- og vinnumarkaðsráðherra úthlutaði 200 milljónum króna í styrki til félagasamtaka

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, veitti í gær styrki til verkefna á sviði félags- og velferðarmála. Veittir voru 41 styrkir og nam heildarfjárhæðin ríflega 200 milljónum króna.

Sú breyting hefur orðið á að veittir voru rekstrarstyrkir, auk hefðbundinna verkefnastyrkja. Verkefnastyrkir eru alla jafna veittir að hámarki til eins árs en rekstrarstyrkir geta verið veittir til tveggja ára í senn. Niðurstaða matsnefndar var að veita alls 20 verkefnastyrki og 21 rekstrarstyrk.

Styrkúthlutun fór fram við hátíðlega athöfn á Reykjavík Natura. Hefð hefur skapast fyrir því að valdir styrkþegar kynni verkefnin sem þeir hljóta styrk fyrir. Að þessu sinni kynnti Sorgarmiðstöðin verkefnið „Hjálp 48“ og Hjálparstarf kirkjunnar sagði frá verkefninu „Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar“.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags og vinnumarkaðsráðherra segir félagasamtök gegna mikilvægi í íslensku samfélagi, ekki síst þegar komi að því að veita fólki í félagslega erfiðri stöðu þjónustu og stuðning.

„„Frjáls félagasamtök gegna afar mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Aðdáunarvert er að sjá hversu mjög félagar og forsvarsfólk þeirra brenna fyrir verkefnum sínum og hlutverki, ekki síst að veita fólki í erfiðri félagslegri stöðu þjónustu og stuðning. Það er mér afar ánægjulegt að fá að leggja mitt af mörkum til þess að þau geti haldið áfram á sinni góðu vegferð.“ 

Hér að neðan má sjá lista yfir styrkþega

Deila