Fengu aldrei að sjá verðmat lóðanna – einbeittur vilji til að gefa olíufélögunum lóðirnar

Vigdís Hauksdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Miðflokksins sem fyrst greindi frá gjafagjörningi Reykjavíkurborgar til olíufélaganna hér á Útvarpi Sögu í byrjun ársins 2022 segir að þegar hún hafi vakið máls á því hvernig væri í pottinn búið hafi verið ráðist að henni og hún smættuð. Vigdís segir í dag að það hafi verið einbeittur vilji af hálfu meirihlutans að gefa olífélögunum lóðirnar en Vigdís var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í dag þar sem rætt var um spillingu.

Vigdís segir að þegar verið var að gefa lóðirnar hafi borgarfulltrúar aldrei fengið að sjá neitt verðmat af þeim lóðum sem verið var að gefa. Hún segir að ástæðan sé sú að þegar það eru gerðir stórir samningar eins og þá sé dregið upp ákveðið heildarmat af lægsta og hæsta ágóða en þar sem ágóðinn féll allur til olíufélaganna hafi heildarmatið aldrei ratað fyrir augu borgarfulltrúanna.

Einbeittur vilji að gefa lóðirnar

Hún segir að þegar fulltrúar olíufélagana hafi mætt til fundar vegna lóðanna hafi þeir mætt gráir fyrir járnum með alls kyns lögfræðiálit en þá kom á daginn að þau hafi verið algjörlega óþörf því viljinn til þess að hreinlega gefa olíufélögunum lóðirnar, sem um ræðir, hafi verið svo einbeittur.

Fengu líka gefins lóðir fyrir nýjar bensínstöðvar

Þá segir Vigdís að lóðirnar sem olífélögin höfðu þegar á leigu hafi ekki verið einu lóðirnar sem þeim hafi verið gefnar því þau hafi einnig fengið gefins aðrar nýjar lóðir. Til að mynda lóðir við Esjumela sem séu mjög verðmætar og sér í lagi fyrir olíufélög því þar sé umferðin inn og út úr bænum og því eftir miklu að slægjast.

Verið að búa til lóðaskort svo íbúðaverð hækki

Þá segir Vigdís að ekki hafi vantað fagurgala borgarstjóra um samningana sem sagði þá flýta mikið fyrir uppbyggingu og á tveimur árum ætti að vera búið að byggja talsvert magn af þeim á meðan staðreyndirnar blasi við núna og ekki ein íbúð hafi verið reist á lóðunum. Vigdís segir að líkleg skýring á því sé sú að það sé verið að búa til enn meiri lóðaskort svo hægt verði að selja íbúðirnar á miklu hærra verði þegar þær verða loksins byggðar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila